Reykjavíkurráð ungmenna fundaði með borgarstjórn um sjö tillögur um málefni mikilvæg ungu fólki í borginni.
Tillögurnar snúa að betri kynfræðslu, aðgengi að viðtalsmeðferðum, fyrirhugaðri styttingu á opnunartíma félagsmiðstöðva, auknu samráði við ungmenni, skólaumhverfi grunnskólanna, kennslu í fjármálalæsi, bættu hjólastólaaðgengi í skólum og félagsmiðstöðvum og að tryggt verði að skyndihjálp sé kennd á öllum stigum grunnskóla.
Vilja að hætt verði við styttingu opnunartíma félagsmiðstöðva
Þetta er í 22. sinn sem ungmennaráðið fundar með borgarstjórn. Í upphafi fundarins fór Dagur B. Eggertsson yfir þær tillögur sem Reykjavíkurráð ungmenna lagði fram á fundi borgarstjórnar í fyrra og stöðu þeirra innan kerfis borgarinnar. Að því loknu tóku fulltrúar ungmennaráðsins til máls.
Alex Dóra Björg Brynjudóttir, fulltrúi í ungmennaráði Laugardals-, Háaleitis-, og Bústaðahverfis lagði til hraðari innleiðingu tilraunaverkefnis um bætta kynfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði. Ástrós Eva Einarsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Laugardals-, Háaleitis- og Bústaðahverfi lagði til að bæta aðgengi að viðtalsmeðferð fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í velferðarráði.
Þá lagði Emilía Nótt Starradóttir, fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta, til að hætt verði við að stytta opnunartíma félagsmiðstöðva í Reykjavík. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði með aðkomu ungmennaráða borgarinnar við umræðu málsins. Oskars Zelmenis, fulltrúi í ungmennaráði Breiðholts lagði til að lífgað verði upp á skólaumhverfi í grunnskólum Reykjavíkur og var samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði.
Vilja að fjármálalæsi verði skyldufag
Embla María Möller Atladóttir, fulltrúi í ungmennaráði Grafarvogs lagði til að gera kennslu í fjármálalæsi að skyldufagi í grunnskólum Reykjavíkur. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði. Bætt hjólastólaaðgengi í skólum og félagsmiðstöðvum var tillaga sem Elísabet Gunnarsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða lagði til og var samþykkt að vísa málinu til aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks.
Að lokum lagði Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, til að skyndihjálp verði kennd á öllum stigum grunnskóla í Reykjavík. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði.