Vilja kennslu í skyndihjálp og bætt aðgengi að viðtalsmeðferðum

Skóli og frístund

F.v. Alex Dóra Björg Brynjudóttir, Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, Emilía Nótt Starradóttir, Embla María Möller Atladóttir, Elísabet Lára Gunnarsdóttir, Ástrós Eva Einarsdóttir og Oskars Zelmenis.
Ungmennaráð Reykjavíkur 2023.

Reykjavíkurráð ungmenna fundaði með borgarstjórn um sjö tillögur um málefni mikilvæg ungu fólki í borginni.

Tillögurnar snúa að betri kynfræðslu, aðgengi að viðtalsmeðferðum, fyrirhugaðri styttingu á opnunartíma félagsmiðstöðva, auknu samráði við ungmenni, skólaumhverfi grunnskólanna, kennslu í fjármálalæsi, bættu hjólastólaaðgengi í skólum og félagsmiðstöðvum og að tryggt verði að skyndihjálp sé kennd á öllum stigum grunnskóla.

Vilja að hætt verði við styttingu opnunartíma félagsmiðstöðva

Þetta er í 22. sinn sem ungmennaráðið fundar með borgarstjórn. Í upphafi fundarins fór Dagur B. Eggertsson yfir þær tillögur sem Reykjavíkurráð ungmenna lagði fram á fundi borgarstjórnar í fyrra og stöðu þeirra innan kerfis borgarinnar. Að því loknu tóku fulltrúar ungmennaráðsins til máls.

Alex Dóra Björg Brynjudóttir, fulltrúi í ungmennaráði Laugardals-, Háaleitis-, og Bústaðahverfis lagði til hraðari innleiðingu tilraunaverkefnis um bætta kynfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði. Ástrós Eva Einarsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Laugardals-, Háaleitis- og Bústaðahverfi lagði til að bæta aðgengi að viðtalsmeðferð fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í velferðarráði.

Þá lagði Emilía Nótt Starradóttir, fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta, til að hætt verði við að stytta opnunartíma félagsmiðstöðva í Reykjavík. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði með aðkomu ungmennaráða borgarinnar við umræðu málsins. Oskars Zelmenis, fulltrúi í ungmennaráði Breiðholts lagði til að lífgað verði upp á skólaumhverfi í grunnskólum Reykjavíkur og var samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði.

Vilja að fjármálalæsi verði skyldufag

Embla María Möller Atladóttir, fulltrúi í ungmennaráði Grafarvogs lagði til að gera kennslu í fjármálalæsi að skyldufagi í grunnskólum  Reykjavíkur. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði. Bætt hjólastólaaðgengi í skólum og félagsmiðstöðvum var tillaga sem Elísabet Gunnarsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða lagði til og var samþykkt að vísa málinu til aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks.

Að lokum lagði Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, til að skyndihjálp verði kennd á öllum stigum grunnskóla í Reykjavík. Samþykkt var að vísa tillögunni til frekari vinnslu í skóla- og frístundaráði.