Verið að vinna upp tafir

Sorphirða Umhverfi

Grenndarstöð með djúpgámum við Freyjugötu.
Grenndarstöð með djúpgámum við Freyjugötu.

Reykjavík hefur metnað til og vill veita íbúum góða úrgangsþjónustu, bæði í rekstri sorphirðu og grenndarstöðva. Í byrjun síðustu viku fékk Reykjavíkurborg tilkynningu að tæming grenndargáma væri fjórum til fimm dögum vegna bilana í bílum en að verktaki væri að störfum við tæmingar. Tveimur dögum síðar eða á miðvikudaginn 19. júlí fékk Terra sína bíla til baka úr viðgerð og má segja að tæming grenndargáma hafi þá verið um sex til sjö dögum á eftir áætlun.

Forstjóri Terra hefur fullvissað Sorpu og Reykjavíkurborg um að fyrirtækið muni vinna á tveimur bílum á vöktum næstu daga við að vinna upp þessar tafir. Eins er fyrirtækið með sorpbíl sem hirðir það endurvinnsluefni sem skilið hefur verið eftir á stöðvunum.

Til viðbótar hefur hirða á endurvinnsluefnum hjá heimilum, bláum tunnum fyrir pappír og grænum tunnum fyrir plast, verið á eftir áætlun hjá sorphirðu Reykjavíkur. Nú er verið að vinna á svæðinu frá Laugarnesvegi og Háaleitisbraut austur að Elliðaám. Allir vinnuflokkar vinna við söfnun á pappír og plasti á laugardaginn til að vinna upp tafirnar. Beðist er velvirðingar á þessum töfum.

Í næstu viku verður síðan farið í hirðu austan Elliðaáa. Byrjað verður á Breiðholtinu og farið í Árbæinn þar á eftir.

Sveitarfélögin standa saman að rekstri grenndarstöðva í gegnum Sorpu

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa saman að rekstri grenndarstöðva þar sem heimilin geta skilað efni til endurvinnslu. Grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru nú um 85 talsins. Sveitarfélögin ákveða staðsetningu stöðvanna og umgerðina um hana innan hvers sveitarfélags fyrir sig. Sveitarfélögin eru með þjónustusamning við Sorpu sem semur við verktaka um gámaleigu og þjónustuna við að tæma gámana. Sá samningur er í dag við Terra umhverfisþjónustu.

58 grenndarstöðvar í Reykjavík

Fjöldi grenndarstöðva er mestur í Reykjavík eða 58 talsins. Á öllum þessum stöðvum er boðið upp á gáma undir pappír – og pappírsefni og plast. Glergámar eru á nær öllum stöðvum og málmagámar eru komnir á grenndarstöðvar í Árbæ og á grenndarstöðvar með djúpgámum, sem eru við Laugalæk, Óðinsgötu og Skúlagötu. Nú í sumar verður málmagámum fjölgað og og verður hægt að nálgast gáma fyrir málma í öllum hverfum borgarinnar að innleiðingu lokinni.

Hlutvert verktakans er að tryggja að á grenndarstöðvum séu ávallt til reiðu gámar fyrir þjónustuna og að í gámunum sé nægjanlegt rými fyrir þann úrgang sem þangað berst. Allir gámar eru tæmdir vikulega en margir þeirra tvisvar eða þrisvar í viku, þá aðallega pappírsgámar. 

Magn pappírs dregst saman um 40% í grenndargámakerfinu

Magn pappírs og plasts, sem safnað er í grenndargáma í Reykjavík hefur dregist saman um 26% og var rúm 746 tonn í stað 1011 tonna ef fyrstu sex mánuðir ársins eru bornir saman við sama tímabil í fyrra.

Aðallega er um að ræða minni söfnun pappírs, aðallega dagblaðapappírs, sem dróst mikið saman þegar Fréttablaðið hætti að koma út. Samdráttur í magni pappírs í grenndargámakerfinu er tæp 40% ef miðað er við fyrstu sex mánuði ársins.

Önnur breyting sem hefur orðið á sama tímabili er að magn glers sem safnað er á grenndarstöðvum hefur aukist um 12%.

Nýtt þjónustuútboð í auglýsingu með breyttu fyrirkomulagi

Sorpa auglýsir nú nýtt útboð á þjónustu við grenndargámakerfi höfuðborgarsvæðisins en vinna samkvæmt nýjum samningi hefst í febrúar 2024. Um er að ræða breytt kerfi, þar sem allar grenndarstöðvar verða með gámum undir gler og málma og textíl í kjölfar lagabreytinga frá Alþingi sem skylda sveitarfélögin að sækja pappír og plast við húsvegg. Þannig mun gámum undir pappír og plast fækka umtalsvert, og í raun eingöngu verða til að taka við umframefni sem fellur til við heimilin til dæmis yfir hátíðir eða þar sem tvískiptar tunnur undir pappír og plast við sérbýli hafa fyllst.

Mikil vinna við hreinsun grenndarstöðva

Sveitarfélögin sjá sjálf um hreinsun umhverfis grenndarstöðvar. Vinnuflokkur borgarinnar sem er á vinnustaðamáli kallaður „Sérsveitin“, fer að jafnaði tvisvar í viku á allar grenndarstöðvar í borginni og hreinsar upp rusl sem hefur verið skilið eftir við stöðvarnar.

Hverfastöðvar sinna stærri verkefnum þegar stærri og grófari úrgangur hefur verið skilinn eftir við stöðvarnar. Um þessar mundir eru tveir flokkabílar í austurborginni nær eingöngu að sinna þrifnaði við grenndarstöðvar vegna þess að skilin er eftir úrgangur sem er skilin þar eftir en á heima á endurvinnslustöð Sorpu.

Mikilvægt að bæta umgengni

Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar vegna hreinsunar við grenndarstöðvar á árinu 2021 nemur tæpum 52 milljónum króna. Umgengi við stöðvarnar hefur farið versnandi undanfarið með stöðugt auknum kostnaði við hreinsun og förgun úrgangs. Því miður er stærstur hluti af þessu úrgangur sem ekkert erindi á á grenndarstöðvar heldur á að skila á endurvinnslustöðvar Sorpu.

Í mörgum tilvikum er um að ræða úrgang sem Sorpa tekur við án endurgjalds. Hér um er að ræða slæma umgengi sem þarf ekki að koma til. Það er því mikilvægt verkefni borgarinnar og íbúa hennar að bæta umgengni í borgarlandinu og draga úr þeim samfélagslega kostnaði sem þarf af hlýst og því lýti sem þetta veldur borginni.