Opinber heimsókn forsetahjóna Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reed, til Reykjavíkur í gær tókst afar vel. Komu þau við á 14 stöðum víðs vegar um borgina og kynntust hinum ýmsu verkefnum sem eru í gangi.
Dagurinn hófst með heimsókn í Ráðhúsið þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Arna Dögg Einarsdóttir eiginkona hans tóku á móti forsetahjónunum. Skólahljómsveit Miðbæjar og Vesturbæjar spilaði til heiðurs gestunum sem heilsuðu síðan upp á starfsfólk Ráðhússins og starfsfólk Grindavíkurbæjar, sem hefur starfsaðstöðu í Ráðhúsinu um þessar mundir.
Með starfsfólki þjónustuvers í Borgartúni.
Eftir að hafa kynnst starfsemi borgarinnar í Ráðhúsinu og í Borgartúni var haldið í heimsóknir og voru móttökur alls staðar til fyrirmyndar, með lúðrasveitum, kórsöng, fimleikum og kaffispjalli svo eitthvað sé nefnt.
Forsetahjónin ásamt borgarstjórahjónunum heimsóttu meðal annars Skalla í Árbæ, þar sem "Skalla-Gulla" hefur staðið vaktina frá árinu 1986.
Hátíðardagskrá var svo á Kjarvalsstöðum klukkan 17 þar sem borgarstjóri þakkaði forsetahjónunum meðal annars fyrir komuna og skipst var á gjöfum. Kvöldverður fór fram í Höfða og lauk opinberu heimsókninni síðla kvölds.
Börnin á Kvistaborg slógu í gegn á Kjarvalsstöðum þar sem þau sungu nokkur lög og röppuðu frumsaminn texta um Kjarval.
Við þökkum forsetahjónunum, Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reed, kærlega fyrir komuna.
Frá útieldhúsi Dalskóla.
Á Facebook-síðu Reykjavíkurborgar má sjá fleiri myndir frá heimsókn forsetahjónanna.