Vel heppnuð opinber heimsókn forsetahjónanna til Reykjavíkur

Mannlíf

Guðni Th. Jóhannesson tekur við gjöf frá börnum í Dalsskóla, úti, í opinberri heimsókn.

Opinber heimsókn forsetahjóna Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reed, til Reykjavíkur í gær tókst afar vel. Komu þau við á 14 stöðum víðs vegar um borgina og kynntust hinum ýmsu verkefnum sem eru í gangi.

Dagurinn hófst með heimsókn í Ráðhúsið þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Arna Dögg Einarsdóttir eiginkona hans tóku á móti forsetahjónunum. Skólahljómsveit Miðbæjar og Vesturbæjar spilaði til heiðurs gestunum sem heilsuðu síðan upp á starfsfólk Ráðhússins og starfsfólk Grindavíkurbæjar, sem hefur starfsaðstöðu í Ráðhúsinu um þessar mundir. 

Opinber heimsókn forsetans til Reykjavíkur, hópmynd í Borgartúni.

Með starfsfólki þjónustuvers í Borgartúni.

Eftir að hafa kynnst starfsemi borgarinnar í Ráðhúsinu og í Borgartúni var haldið í heimsóknir og voru móttökur alls staðar til fyrirmyndar, með lúðrasveitum, kórsöng, fimleikum og kaffispjalli svo eitthvað sé nefnt. 

Forsetahjónin Guðni og Eliza ásamt Degi B. og frú með Gullu eiganda Skalla fyrir utan Skalla. Opinber heimsókn til Reykjavíkur.

Forsetahjónin ásamt borgarstjórahjónunum heimsóttu meðal annars Skalla í Árbæ, þar sem "Skalla-Gulla" hefur staðið vaktina frá árinu 1986.

Hátíðardagskrá var svo á Kjarvalsstöðum klukkan 17 þar sem borgarstjóri þakkaði forsetahjónunum meðal annars fyrir komuna og skipst var á gjöfum. Kvöldverður fór fram í Höfða og lauk opinberu heimsókninni síðla kvölds. 

Börn úr Kvistaborg á sviði á Kjarvalsstöðum í opinberri heimsókn Guðna forseta til Reykjavíkur.

Börnin á Kvistaborg slógu í gegn á Kjarvalsstöðum þar sem þau sungu nokkur lög og röppuðu frumsaminn texta um Kjarval.

Við þökkum forsetahjónunum, Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reed, kærlega fyrir komuna. 

Við útieldhús við Dalsskóla, forsetahjónin Guðni og Eliza ásamt Degi B. og frú og hópi úr skólanum.

Frá útieldhúsi Dalskóla.

Á Facebook-síðu Reykjavíkurborgar má sjá fleiri myndir frá heimsókn forsetahjónanna.