Matarafskurðir og aðrir matarafgangar frá framleiðslueldhúsi velferðarsviðs á Vitatorgi er um það bil 1 tonn á mánuði. Úr því verða 100 – 150 kg af moltu að meðaltali á mánuði í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur og Verkbækistöð umhverfis- og skipulagssviðs.
Áhersla er lögð, í Græna plani Reykjavíkurborgar, á umhverfismál og verkefni sem styðja við minni sóun og eflingu hringrásarhagkerfisins. Skemmtilegt tilraunaverkefni og samstarf hefur orðið til á milli framleiðslueldhúss velferðarsviðs á Vitatorgi, Verkbækistöðvar 3 í Laugardalnum og Grasagarðs Reykjavíkur sem fellur vel inn í þessar áherslur.
Mikið af lífrænum úrgangi, afskurði og afgöngum verða óhjákvæmilega til í stóru eldhúsi þar sem þúsund matarskammtar eru framreiddir daglega. Eyjólfur Einar Elíasson, framkvæmdastjóri framleiðslueldhússins hefur leigt sérstaka jarðgerðarvél í þeim tilgangi að minnka matarúrganginn og koma honum í góða nýtingu.
Moltan er ótrúlega hrein.
Matarafskurðir og aðrir matarafgangar frá framleiðslueldhúsinu er um það bil 1 tonn á mánuði. Úr því verða 100 – 150 kg af moltu að meðaltali á mánuði. „Niðurbrotsferlið tekur afar stuttan tíma í vélinni, aðeins rúmlega sólarhring. Það er gert með því að nota örverur og flýta fyrir niðurbrotinu í vélinni með hita, réttu rakastigi og stöðugri hreyfingu. Síðan er eitthvað af moltunni skilið eftir í vélinni og notað til að blandast við nýtt efni sem bætist við og örverurnar halda áfram að fjölga sér. Svipuð pæling og með súrdeig,“ segir Eyjólfur.
Endurnýting og minni sóun
Eyjólfi er endurnýting og minni sóun mjög hugleikin og nýtir hann stórar plastfötur, sem innihéldu áður sósur og skyr fyrir eldhúsið, undir moltuna úr vélinni. „Við keyrum þetta síðan í Grasagarðinn á rafmagnsbílnum okkar sem fer daglega með matarsendingar.“
„Moltan er ótrúlega hrein og það kemur mjög á óvart,“ segir Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðsins sem tekur við moltunni frá framleiðslueldhúsinu í tilraunaskyni. „Það er smá mólassalykt af þessu, eins og púðursykur. Allavega er lyktin alls ekki slæm, heldur bara mjög góð."
Samlíf manna og örvera
„Við ætlum að safna þessu í vetur og nota eitthvað af moltunni næsta sumar á grasflatirnar. Moltan úr matarleifunum inniheldur fjölbreyttari næringarefni en moltan úr okkar safnhaugum. Við erum með jarðvegshauga sem er snúið þegar hitastigið er rétt. Snúningurinn eykur súrefnið í haugnum og niðurbrotið verður hraðar,“ segir Hjörtur
Kamil Lewandowicz frá verkbækistöðinni í Laugardalnum sem sér um að snúa haugunum með sérstakri vél og mæla reglulega hitastigið. Sú molta, sem verður til í þessu ferli, er of grófgerð til að auðvelt sé að bera hana á grasflatirnar. „Eins hafa mælingar á innihaldsefnum moltunnar úr haugunum okkar sýnt að það vanti fosfór og kalíum til að hún nýtist vel sem áburður, við höfum meira verið að nota hana sem jarðvegsbæti og hvata fyrir aukna örveruflóru,“ segir Hjörtur.
Grasagarðurinn er í þátttakandi í samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Matís um samlífi manna og örvera. Í tengslum við þetta verkefni munu sýni verða tekin úr safnhaugum Grasagarðsins og svo úr þessari moltu. Sýnin eru greind til þess að kortleggja hvaða örverutegundir sinna niðurbrotinu og heitir þetta spennandi verkefni „Samlífi manna og örvera“.