Hjá Reykjavíkurborg vinnur vel á tólfta þúsund manns í afar fjölbreyttum störfum. Dagbjört Ýr Gísladóttir er ein þeirra. Hún er vaktstjóri í Laugardalslauginni og við fengum að fylgja henni eftir í vinnunni og kynnast betur starfi hennar og þessari frábæru sundlaug, sem er ein átta lauga í borginni okkar.
„Til að mega gerast sundlaugarvörður þarf að hafa náð 18 ára aldri og svo þarf að ljúka skyndihjálparnámskeiði og laugarvarðarprófi sem felur meðal annars í sér þolpróf, köfun, að geta kafað eftir og synt með annan einstakling og fleira,“ segir Dagbjört. „Hér í Laugardalslaug eru alltaf fjórir sundlaugarverðir á vakt; tveir úti á bakka, einn í turninum og einn hjá innilauginni. Við skiptum um staði á hálftíma fresti og höldum þannig góðum fókus.“
Vanafastir fastagestir
Hún segir samstarfsfólkið það skemmtilegasta við starfið en erfiðast sé að tækla ýmsar áskoranir sem komi upp daglega. „Svo auðvitað ef slys verða, þá þarf að bregðast rétt við en líka gæta þess að starfsfólkinu líði vel og allir geti sinnt sínu,“ segir hún. „Ég held að margir átti sig ekki á hvernig það er að vera laugarvörður. Það þarf að fylgjast vel með allan daginn og huga að mörgu. Er einhver í vanda í vatninu? Er þetta barn eftirlitslaust? Hvað er þessi búinn að vera lengi í kalda pottinum? Er örugglega í lagi með þessa sem syndir svo hægt? Þetta getur verið stressandi. Verkefnin eru mörg og þetta er ekkert rólegheitastarf.“
Hún segir gestina almennt mjög skemmtilega. „Við höfum marga fastagesti sem mæta alla morgna. Þegar laugin er opnuð þyrpast þau inn og maður þarf bara að forða sér,“ segir Dagbjört og glottir. „Þau eru vanaföst og vilja helst nota sömu skápana og sömu sundbrautirnar. Einn þarf alltaf að vera fyrstur ofan í, annars syndir hann ekki þann daginn. Sundleikfimi á morgnana lýkur svo alltaf þannig að þátttakendur dansa í hring og syngja lag. Það fær mig alltaf til að brosa! Svo er gaman að sjá krakkana leika sér, þótt inn á milli séu auðvitað óþekktarormar. Þetta er oft eins og félagsmiðstöð á kvöldin, við sjáum allt hérna.“
Á Facebook-síðu Reykjavíkurborgar má sjá fleiri myndir sem sýna dag í lífi laugarvarðar.
Síða Rauða krossins um skyndihjálp og björgun.