Yfir þrjátíu námskeið voru haldin á sumarsmiðjum grunnskólakennara sem fram fóru í Háteigsskóla og Menntavísindasviði Háskóla Íslands í vikunni. Hátt í 700 kennarar voru skráðir til leiks og mátti sjá áhugann skína af þeim sem tóku þátt í þeirri viðleitni að efla sínar kennsluaðferðir. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur heldur sumarsmiðjurnar í lok hvers sumars til að gefa kennurum tækifæri til að kynnast nýjum hugmyndum í skólastarfi.
Námskeið um áfallamiðaða og nálgun og umhverfi fyrir ADHD börn voru vinsæl
Fjölmennustu námskeiðin snéru að áfallamiðaðri nálgun í skólakerfinu, hvernig hægt er að koma til móts við nemendur í námsumhverfi skóla fyrir alla og leiðsagnarnám. Eins voru skapandi námskeið vinsæl og má þar nefna flugdrekasmiðju, námskeið um nærumhverfið í gegnum listir og náttúruvísindi og legósmiðju.
Lífsleikni, núvitund og hinsegin fræðsla
Áherslur Menntastefnu Reykjavíkurborgar "Látum draumana rætast" eru fléttaðar inn í sumarsmiðjurnar þar sem áhersla er á sjálfseflingu, félagsfærni, læsi, sköpun og heilbrigði. Námskeiðin og smiðjurnar voru fjölbreyttar og mátti finna smiðjur um hinsegin fræðslu, núvitund, lífsleikni og sem snéru að því að efla kennara á miðstigi til að kenna kynfræðslu. Leiðsagnarnámið sem margir sóttu felur í sér fjölbreyttar kennsluaðferðir þar sem nemendur taka virkan þátt í að móta eigið nám, mikið er unnið með samskipti og kennarar eru þjálfaðir í að nýta endurgjöf með markvissum hætti.
Sköpun, tækni og nýjungar í skilum verkefna
Þá voru áhugaverð námskeið um þrívíddarhönnun- og prentun, iPad kennslu og skapandi skil sem ýtir undir leiðir til að rjúfa múr einsleitni. Í því síðast nefnda var unnið með fjölbreyttar aðferðir eins og stafræna tækni, ljóð, rapp, spuna, sjónlistir, kvikmyndir, hljóðupptökur, dans, leik og annað sem að eflir nemendur í að nýta styrkleika sína, mennsku. Auka þannig skilning nemenda á mikilvægi þess að nýta sköpun til að hafa áhrif á samfélag sitt og umhverfi.