Rúmlega hundrað sjúkraliðar fengu fræðslu um líknarmeðferð í heimahúsum

Sjúkraliðar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hlusta á erindi um beitingu líknarmeðferðar í heimahúsum og á hjúkrunarheimilum.
Sjúkraliðar hlusta á erindi um beitingu líknarmeðferðar í heimahúsum og á hjúkrunarheimilum.

Yfir hundrað sjúkraliðar sem starfa í heimaþjónustu og á hjúkrunarheimilum á vegum Reykjavíkurborgar komu saman á tveimur ráðstefnum í vikunni, sem velferðarsvið stór fyrir í samstarfi við Sjúkraliðafélag Íslands og Framvegis, miðstöð símenntunar. Á ráðstefnunum var áhersla lögð á nálgun og beitingu líknarmeðferðar í heimahúsum og á hjúkrunarheimilum.

Hjá Reykjavíkurborg er innleiðing velferðarstefnunnar, sem samþykkt var í júní árið 2021, í fullum gangi. Í henni er lögð mikil áhersla á að efla fræðslu starfsfólks. Í henni kemur meðal annars fram að velferðarþjónusta borgarinnar hafi það markmið að auka lífsgæði og stuða að því að allir Reykvíkingar geti lifað með reisn. Þá er aukin áhersla á þjónustu í heimahúsi og má samfara því gera ráð fyrir að fleira eldra fólk kjósi að þiggja lífslokameðferð í heimahúsi á næstu árum.

Fyrirlesrarar voru þær Svandís Íris Hálfdánardóttir og Kristín Lára Ómarsdóttir frá líknarmiðstöð Landspítalans. Auk þeirra kynntu Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri teymis árangurs- og gæðamats hjá velferðarsviði, niðurstöður þjónustukönnunar heimahjúkrunar og Kristín Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá velferðartæknismiðju, kynnti starfsemi smiðjunnar.