Nýta reynslu af félagsmiðstöðvastarfi í Reykjavík

Skóli og frístund

Opnun félagsmiðstöðvar í Burgas.

Tveir starfsmenn frá skóla- og frístundasviði tóku þátt í formlegri opnun félagsmiðstöðvar í Burgas í Búlgaríu í vikunni. Félagsmiðstöðinni sem líka er ungmennahús er ætlað er að færa þjónustu nær ungmennum í viðkvæmri stöðu og hjálpa þeim að öðlast tækifæri til þátttöku í samfélaginu, hjálpa þeim að mennta sig og nýta réttindi sín.

Hópar ungmenna úr Reykjavík hafa farið til Burgas

Félagsmiðstöðin og ungmennahúsið er byggt fyrir styrk frá Uppbyggingasjóði EES og ætlað að efla félagsmiðstöðvastarf í Búlgaríu og var úthlutað til fjögurra borga. Í styrknum fólst að byggja húsnæði og sækja þekkingu og reynslu til landa og sveitarfélaga sem hafa reynslu af félagsmiðstöðvastarfi og var samstarfið við Reykjavík því lykilatriði fyrir borgina Burgas.

Þeir Hjörtur Ágústsson, verkefnastjóri alþjóðasamstarfs og styrkja hjá skóla- og frístundasviði og Gunnlaugur Víðir Guðmundsson forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans tóku þátt í opnuninni. Gunnlaugur hefur tvisvar farið með hóp ungmenna til Burgas og eins hefur hópur komið þaðan til að kynna sér starfið sem fram fer í Reykjavík. Hugsunin var að unglingarnir myndu kynnast og sjá hvað er líkt og hvað er ólíkt við það að vera unglingur á Íslandi annars vegar og Búlgaríu hins vegar. Tilgangurinn var líka að starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar í Búlgaríu myndu sjá hvernig starfað er með unglingunum hér og að þeirri reynslu yrði þannig miðlað áfram. „Sá hluti verkefnisins gekk mjög vel og ánægjulegt hversu mikið þau vildu læra af okkur og hversu mikið þau hafa innleitt það í sína hugmyndafræði,“ segir Gunnlaugur.

 

„Sá hluti verkefnisins gekk mjög vel og ánægjulegt hversu mikið þau vildu læra af okkur og hversu mikið þau hafa innleitt það í sína hugmyndafræði.“ 

Guðlaugur Víðir

Miklar áskoranir vegna ólíkra samfélagshópa

Hlutverk félagsmiðstöðvarinnar verður bæði hefðbundið eins og það er víða í Evrópu með verkefnamiðaða hópa en þau standa frammi fyrir miklum áskorunum varðandi mismunandi samfélagslegshópa. Þau sinna ungmennum á aldrinum 13-25 ára og er aðaláherslan á framhaldsskólaaldur. Þau starfa mjög náið með framhaldsskólum á svæðinu og er starfið mjög verkefnamiðað þar sem unnið er með hópa í áhugadrifnum verkefnum eins og ungmennaskiptum, góðgerðarstarfi, leiklist og aðstoð við unga foreldra.