Myndlistarsamkeppni fyrir reykvísk grunnskólabörn

Mannlíf Menning og listir

Barnshönd heldur á pensli og málar gula sól í hornið á hvítu blaði.

Samtök friðarborgarstjóra (e. Mayors for Peace) standa fyrir árlegri myndlistarsamkeppni grunnskólabarna í aðildarborgum og nú gefst reykvískum börnum tækifæri til þátttöku. 

Þemað er „Hvað er friður fyrir mér?“ (e. What Peace Means to Me). Skilafrestur teikninga/málverka hjá reykvískum skólabörnum er til 29. september og tilkynnt verður á alþjóðlegri friðarráðstefnu í Hörpu þann 9. október hvaða verk verða valin sem framlög Reykjavíkurborgar í alþjóðlega myndlistarsamkeppni barna.  

Verðlaunamyndir birtast víða

Þátttakendur þurfa að vera á aldrinum 6-15 ára (miðað er við 1. nóvember 2023) og búa og/eða sækja nám í Reykjavík. Keppt verður í tveimur aldursflokkum, 6-10 ára og 11-15 ára. Valdar myndir verða sýndar á friðarráðstefnunni í Hörpu í október. Samtökin eignast rétt til birtinga á verðlaunamyndunum og verða þær notaðar víða, meðal annars í kynningarefni um mikilvægi menntunar á sviði friðarmála, til dæmis á ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna.  

Borgarstjóri veitir verðlaun fyrir bestu myndirnar í Reykjavík og þær verða sendar í alþjóðlegu keppnina

Myndir verða sendar inn úr grunnskólum borgarinnar og hafa kennarar og skólastjórnendur fengið nánari upplýsingar um fyrirkomulag. 

Fyrirspurnum svarar Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri barnamenningar (harpa.rut.hilmarsdottir@reykjavik.is).

Vaxlitir, tveir tússlitir og límbandsrúlla í plastboxi, loftmynd.