Það er ekki hægt að rækta nammi og allt sem maður ræktar er hollt, var meðal þess sem kom fram í samtali við þrjá fimm ára drengi þegar leikskólinn Rauðhóll fékk afhent svokallað Bambahús.
Ræktun í grænmetis rímar vel við stefnu leikskólans
Ingveldur Ævarsdóttir, útikennari á Rauðhól, sótti um og fékk styrk fyrir Bambahúsi hjá Krónunni. Allar deildir leikskólans fara í skógarhúsið í Björnslundi einu sinni viku þar sem gerðar hafa verið tilraunir til ræktunar í útikössum en þar hefur ræktunin ekki fengið að vera í friði. Kennarinn í skógarhúsinu hafði haft orð á að gaman væri að fá gróðurhús og hafði Ingveldur síðan haft það ofarlega í huga. Nú þegar húsið er komið styttist í að undirbúningur geti hafist. „Í febrúar, mars sjáum við fyrir okkur að byrja með einhverja forræktun, mögulega inni fyrst,“ segir Ingveldur sem sjálf hefur ýmislegt að læra í þeim efnum. Í Rauðhól starfar ein sem einnig stundar nám við Garðyrkjuskólann og margir áhugasamir svo búast má við spennandi gróðurvinnu framundan.
Af hverju er ekki hægt að rækta nammi? Af því það er ekki með neina baun.
Matur kemur ekki bara úr búð
Allar deildir fara í útikennslu einu sinni í viku og verður Bambahúsið skemmtileg viðbót við leikskólastarfið. „Að rækta með börnum hefur mikið gildi. Við kennum þeim hvernig matur verður til, hvernig við nýtum jörðina og hvernig við þurfum að fara vel með hana svo við getum ræktað á henni áfram. Þannig kennum við umhverfislæsi í gegn um ræktun því við þurfum að skoða og fylgjast með plöntunum og gera viðeigandi ráðstafanir eftir þörfum þeirra. Vökva, reita arfa, gefa áburð og svo framvegis. Við erum líka að skapa aðstæður þar sem börnin fá tækifæri til að mynda jákvæð tengsl við plönturnar og náttúruna og þeim fer jafnvel að finnast vænt um þær. Svo er náttúrlega spennandi að geta smakkað afraksturinn og haft áhrif á hvað á að rækta. Það er mjög gefandi að rækta og vera af og til með fingurna í moldinni,“ segir Ingveldur spennt fyrir framhaldinu og að börnin fái að kynnast því að matur kemur ekki bara úr búðinni.
Albert, 5 ára, sagðist mjög spenntur og ætlaði sér að rækta bæði gulrætur og kál. Ólíver 5 ára hélt á mandarínustein sem hann vildi rækta fleiri slíkar úr. Hann sagði ekki væri hægt að nammi og ástæðan; „af því það er ekki með neina baun.“ Þröstur, 5 ára, var áhugasamari um að rækta ber. Fyrst nefndi hann jarðaber sem hann ætlaði að borða með súkkulaði og kannski líka vínber. Hann á heldur ekki langt að sækja berjaáhugann: „Ég fer stundum með ömmu minni í berjamó, rétt hjá Sigló, það er svo mikið af berjum þar.“
Íslenskt hugvit og partur af hringrásarhagkerfinu
Bambahús eru framleidd úr IBC tönkum eða svo kölluðum bömbum og eru íslensk hönnun og hugvit. Húsin eru sköpuð úr efnum sem annars væri hent en verða þess í stað hluti af hringrásarhagkerfinu og geta merkt við 9 af 13 heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum.