„Mér finnst að börn eigi stundum að fá að hafa áhrif“

Íþróttir og útivist Mannlíf

Guðjón og Sigurður afhentu borgarstjóra undirskriftirnar formlega í Landakotsskóla.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitir viðtöku undirskriftalista frá börnum í Landakotsskóla. Á myndinni tekur hann í hönd annars drengjanna sem stóðu að listanum, hinn fylgist með ásamt einu barni enn, sem situr. Mynd úr skólastofu.

Borgarstjóri veitti í dag formlega viðtöku undirskriftalista frá börnum í Landakotsskóla. Þeim fannst vanta betri aðstöðu til fótboltaiðkunar á skólalóðinni og vinirnir Guðjón og Sigurður gengu í málið, nýttu lýðræðislegan rétt sinn og komu hugmynd krakkanna á framfæri við borgaryfirvöld.

„Fótboltavöllurinn á skólalóðinni okkar var tekinn til að rýma fyrir skólastofum. Hinn völlurinn er alltaf allur í mold svo við vildum fá nýjan gervigrasvöll til að geta spilað í frímínútum án þess að koma alltaf moldug inn,“ segir Guðjón Ingi Skúlason, annar hinna framtakssömu sjöttu bekkinga. Sigurður Hilmar Brynjólfsson vinur hans komst ekki í viðtalið þar sem hann var upptekinn á æfingu fyrir leikrit í Borgarleikhúsinu. Það er greinilega nóg að gera hjá þessum ungu mönnum. 

Söfnuðu 176 undirskriftum

Fyrir rúmu ári síðan voru þeir félagar á göngu úr sundi og ræddu við aðstoðarkennara sinn, Ágúst Mána Hafþórsson, um hversu léleg fótboltaaðstaðan væri. Hann stakk því upp á undirskriftasöfnun og úr varð að vinirnir skrifuðu borgarstjóra bréf og söfnuðu 176 undirskriftum hjá skólafélögum sínum. „Krakkarnir tóku þessari hugmynd mjög vel og skrifuðu öll undir,“ segir Guðjón. „Við fengum að sleppa einhverjum tímum til að geta sinnt þessu og svo þurftum við að senda póst á borgarstjóra til að biðja um fund með honum. Við létum hann fá bréfið okkar í Ráðhúsinu og svo var listinn afhentur í skólanum í dag,“ útskýrir hann. 

Þegar börn komi með góðar hugmyndir eigi alla vega að íhuga þær

Guðjón segir aðspurður mikilvægt að raddir barna heyrist. „Mér finnst að börn eigi stundum að fá að hafa áhrif, eins og til dæmis núna. Börn eru ekki orðin alveg þroskuð og stundum fá þau kannski skrýtnar hugmyndir, en mér finnst að þegar þau koma með góðar hugmyndir þá ætti alla vega að íhuga þær,“ segir hann og auðvelt er að taka heilshugar undir það. 

Guðjón segir ferlið hafa verið mjög skemmtilegt, en skyldu fleiri baráttumál liggja fyrir? „Ekki núna, en það gæti orðið einhvern tímann seinna.“ Hann veit hvað hann langar að verða þegar hann verður eldri og svarið kemur ekki á óvart. „Mig langar að verða íþróttamaður,“ segir hann ákveðinn og er svo rokinn í fótbolta með vinum sínum. 

Börnin þjálfuð í að hafa rödd

Anna Guðrún Júlíusdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, hrósar framtakssemi strákanna og segir kennara þeirra, Ólafíu Jóhannesdóttur og aðstoðarkennara, Ágúst Mána Hafþórsson, líka eiga heiður skilinn. „Þau hafa eflt þennan lýðræðislega hugsunarhátt,“ segir hún. „Við erum með lýðræðisþing á hverju ári á mannréttindadegi barna svo börnin eru þjálfuð í að hafa rödd, við höfum unnið mikið með það í þessum skóla. Það er í anda skólans að hvetja þau til að hafa skoðanir og koma þeim á framfæri.“

Í fundargögnum má nálgast upplýsingar um fyrirhugaða breytingu á deiliskipulagi Landakotsreits, sem efla á núverandi útivistarsvæði sem leik-, íþrótta- og dvalarsvæði. Bréf þeirra félaga, Guðjóns og Sigurðar, ásamt undirskriftalistanum, verður síðan kynnt á fundi borgarráðs á fimmtudaginn.