Líf og fjör á Ólympíuhátíð frístundaheimila

Skóli og frístund

Krakkar og leiðbeinendur úr Glaðheimum á Ólympíuhátíð í Laugardal.

Frístundaheimilin sem tilheyra Norðurmiðstöð tóku þátt í Ólympíuhátíðinni sem haldin var í Laugardal í gær. Heyra mátti ýmis skemmtióp og söngva þegar hóparnir gengur frá sínu frístundaheimili á keppnisstað.

Haldinn í tíunda sinn

Ólympíuhátíðin er viðburður sem haldin er á hverju ári í sumarstarfi frístundaheimila í borgarhlutanum. Hátíðin var fyrst haldin sem lítill viðburður í smærri hópum árið 2013 og hefur vaxið og dafnað síðan þá og var nú haldin í tíunda sinn. Hátíðin er síbreytileg en sérstök nefnd frístundaheimila í Laugardal útfærir viðburðinn hverju sinni miðað við aðstæður, staðsetningu sem og greina sem keppt er í. 

Vítaspyrnukeppni í gangi á Ólympíuhátíðinni í Laugardal.
Vítaspyrnukeppni var ein keppnisgreina.

Gengu fylktu liði í einkennislitum

Það eru frístundaheimilin Laugarsel, Vogasel, Glaðheimar, Dalheimar, Krakkakot, Neðstaland, Álftabær og Sólbúar sem taka þátt. Hvert frístundaheimili á sinn einkennislit og eru dagarnir á undan nýttir til þess að gera búninga, fána og annað í sínum lit, ásamt því að velja sína fulltrúa í hinar ýmsu keppnisgreinar.

Krakkar í körfubolta á Ólympíuhátíðinni í Laugardal.
Gleði og keppnisandi undir körfunni.

Áhersla á stuðningsanda

Hátíðin byrjar ávallt á því að frístundaheimilin safnast saman í skrúðgöngu, þar sem að gengið  er í orkumikilli halarófu frá hverju frístunaheimili í sínum einkennislit og hrópað og sungin lög í anda hvers frístundaheimilis.  Þegar skrúðgöngu er lokið er keppt í ýmsum greinum. Í ár var keppt í : Vítaspyrnu, Stinger og þrautabraut, ásamt því að mikil áhersla var lögð á góðan stuðningsanda. Að þrautum loknum voru ýmsar aðrar skemmtigreinar í boði á borð við reipitog, kaststöðvar. Að lokum  fengur svo allir  viðurkenningarskjöl og ís.