Leitað að framtíðarlausn fyrir skotíþróttir 

Íþróttir og útivist Umhverfi

Myndin sýnir frostna jörð, eyðilega.

Á fundi borgarráðs í dag var lagt fram erindisbréf um að skipa starfshóp um framtíðarlausn á uppbyggingu og staðsetningu fyrir skotíþróttir. 

Staðsetning skotvalla á Álfsnesi hefur verið umdeild og hafa íbúar á svæðinu kvartað undan hávaða- og jarðvegsmengun.  Þá er einnig ljóst að Sundabraut mun fara um þetta svæði. Starfshópnum er aætla að huga að framtíðarstaðsetningu fyrir íþróttamiðstöð skotíþrótta og að gera áætlanir um flutning skotvalla frá Álfsnesi. 

Félögin sem þar hafa haft aðstöðu eru Skotfélag Reykjavíkur (SR) sem er elsta íþróttafélag í Reykjavík, og Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis (SKOTREYN) sem er félag skotveiðimanna. 

Tillögur fyrir 1. apríl 

Hlutverk starfshópsins er að leggja fram tillögur að framtíðar staðsetningu fyrir íþróttamiðstöð skotíþrótta sem hentar slíkri samstarfi í samræmi við 13. gr. íþróttalaga, í samráði við sveitarstjórnar á höfuðborgarsvæðinu gegnum Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), íþróttahreyfinguna, skotfélögin og íslenska ríkið. Í erindisbréfinu segir ennfremur að „Mannvirki Íþróttamiðstöðvar skotíþrótta yrðu reist utan alfaraleiða og fjarri byggð og nýtist öllum skotíþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu og víðar.“ 

Formennska í starfshóp um aðstöðu skotíþrótta verður fulltrúi frá menningar- og íþróttasviði en einnig verða fulltrúar frá umhverfis- og skipulagssviði og heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar. Starfshópurinn mun leita ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu eftir því sem við á.  Starfshópurinn á að skila inn tillögum með kostnaðarmati fyrir 1. apríl næstkomandi.