Körfuboltaspjöld við Seljaskóla sett upp aftur og verða ekki fjarlægð af öðrum lóðum
Íþróttir og útivist Skóli og frístund
Reykjavíkurborg mun ekki fjarlægja körfuboltaspjöld af skólalóðum á sumrin. Þar sem þau eru mjög nálægt íbúðabyggð verða sett upp upplýsingaskilti um að notkun sé ekki heimil eftir ákveðinn tíma á kvöldin. Hluti af körfuboltaspjöldum sem eru á lóð Seljaskóla voru tekin niður síðustu helgi vegna kvartana frá nágrönnum, en verða nú sett upp aftur.
Nágrannar sem búa nálægt nokkrum grunnskólum í Reykjavík hafa kvartað yfir hávaða sem myndast þegar hópar safnast saman við körfuboltaspjöld á meðan á sumarlokun skólanna stendur, og oft standa leikar fram á kvöld. Reykjavíkurborg hefur áður orðið við óskum um að fækka spjöldum næst íbúðabyggð.
Fjölmargar ábendingar bárust borginni hins vegar um helgina þegar fjarlægð voru spjöld á lóð Seljaskóla í Breiðholti og voru ferlar teknir til endurskoðunar í kjölfarið. Spjöldin verða nú sett aftur á sinn stað í dag.