Íþróttaakstur frá frístundaheimilum endurskoðaður

Skóli og frístund

Umræður um íþróttaakstur.

Íþróttafélögin í borgini munu nú í kjölfarið taka mið af þessum niðurstöðum við niðurröðun æfingatíma fyrir næsta vetur og styðja þannig að heildstæðari dag barnsins í borginni. 

Íþróttaaksturinn hefur þróast á ýmsa vegu

Reykjavíkurborg hefur veitt fjárstuðning, frá 2010, til hverfisíþróttafélaganna í Reykjavík vegna aksturs með börn frá frístundaheimilum á æfingar innan þeirra hverfa sem þau starfa. Í upphafi var gert ráð fyrir að aksturinn stæði börnum í 1. og 2. bekk til boða á æfingar fyrir kl. 16:30 ef þær væru ekki í göngufæri. Gert var ráð fyrir akstri aðra leiðina og að foreldrar myndu sækja börnin eftir æfingu.

Íþróttaaksturinn hefur hins vegar þróast á ýmsa vegu og þótti tilefni til að kalla til fundar og fara yfir hvað hefur gengið vel og hvað mætti betur fara.

Stuttur tími í frístundastarfi fyrir æfingu

Kynntar voru niðurstöður kannanna meðal íþróttafulltrúa og forstöðufólks frístundaheimila um íþróttarútuna. Fram kom að fyrstu rútur fara frá frístundaheimilum kl. 14:00 og 14:30. Þannig fá þau börn sem fara fyrst á æfingar aðeins 20-50 mínútur á frístundaheimilinu áður en þau fara. Víða í borginni fara börn aftur á frístundaheimilið að loknum æfingum og fara því í tvær rútuferðir á tíma frístundaheimilisins. Misjafnt er hvernig ábyrgðin skiptist á milli íþróttafélaga og frístundaheimila.

Sjónarmið íþróttafulltrúa og forstöðumanna frístundaheimila voru kynntar og farið var í hópavinnu skipt eftir hverfum/íþróttafélögum. Fram koma að ef ekki væri fyrir íþróttarútuna þá væri líklega minni þátttaka og æfingatímar væru seinna á daginn eða um helgar. Talið var líklegt að færri myndu æfa í hverfum þar sem lengra er í íþróttaaðstöðu. Þannig fækkar íþróttaaksturinn einkabílum í umferð, stuðlar að aukinni þátttöku í íþróttum og tryggir samfellu í degi yngstu barna grunnskólans. Eins bætir hann nýtingu íþróttamannvirkja.

Umræður um íþróttaakstur.
Í umræðum kom fram að leiðir til lausna gætu falist í að færa æfingatíma yngri barna seinna á daginn.

Setja mögulega æfingatíma 3. og 7. bekk fyrr á daginn

Helstu áskoranirnar eru vegna álags sem fylgir því að koma börnunum á æfingar fljótlega eftir að þau koma á frístundaheimilin. Þannig gefst stuttur tími til að fara yfir daginn með þeim, gefa þeim að borða, finna til æfingafötin og sortera hver á að fara hvert. Í mörgum tilfellum þarf að passa upp á að börn skili sér til baka á frístundaheimilin eftir æfingar. Fyrir íþróttafélögin felst áskorun í ábyrgðinni sem fylgir akstrinum, halda utan um hópinn fram að æfingu og í mörgum tilfellum að passa upp á að börnin fari aftur í rútu eftir æfingu.

Leiðir til lausna gætu falist í því að hafa æfingatíma yngri barna, í 1. og 2. bekk eða 1.-4., bekk seinna á daginn svo að ekki þurfi að keyra þau til baka aftur á frístundaheimilin, heldur sæki foreldrar á æfingarnar. Þar með fá börnin smá andrými eftir skóla fyrir góða síðdegishressingu, skipulagt frístundastarf og/eða frjálsan leik á frístundaheimilum áður en þau fara á æfingar. Í umræðunum kom fram að mörg félög vilja athuga hvort æfingar barna í 3.-7. bekk geti hafist á undan æfingum fyrir börn í 1.-2. bekk næsta vetur.

Framþróun hefur orðið í utanumhaldi á æfingum barnanna, s.s. með notkun tölvuforrita sem frístundaheimilin og íþróttafélögin nota.

Skýra þarf fyrir foreldrum hver ber ábyrgð og hvenær sú ábyrgð færist á annan aðila. Eins þarf að tryggja að samskiptaleiðir séu skýrar og þá sérstaklega þegar breytingar verða á rútuferðum eða æfingatímum.

Umræður á fundinum þóttu mikilvægar og góðar og vonandi halda þær áfram úti í hverfunum með þátttöku foreldra og barnanna sjálfra.