„Hlustið á ungmennin – við vitum hverju þarf að breyta“

Fulltrúar skóla- og frístundaráðs, velferðarráðs og frummælendur á Farsældarkaffi.

Fjallað var um líðan og áskoranir ungs fólks á sameiginlegum fundi velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs í morgun. Meðal þeirra sem fram komu var Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, fulltrúi í Reykjavíkurráði ungmenna og áheyrnarfulltrúi í skóla- og frístundaráði. Hún var með kröftugt erindi þar sem hún lýsti því meðal annars að kerfið hafi brugðist bæði henni og móður hennar þegar þær þörfnuðust aðstoðar.

Hún nefndi ýmsa þætti sem mörg ungmenni í dag þurfa að takast á við: „Geðrænar áskoranir, samfélagsmiðla, ofbeldi, fordóma, skólaforðun, fátækt. Listinn heldur áfram en lausnirnar gera það ekki. Það á ekki að koma neinu ykkar á óvart að stórum hluta ungmenna líður ekki vel. En hvernig ætlum við að mæta þessum ungmennum? Hvernig ætlum við að hjálpa þeim að líða betur? Við getum byrjað með því að hlusta á ungmenni, eins og þið eruð að gera núna, því við vitum nefnilega hverju þarf að breyta.“

Bakland fyrir ungmenni sem lítið bakland hafa

Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH (Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) sagði frá sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins fyrir árin 2020–2024 og fór yfir hin ýmsu forvarnaverkefni sem SSH kemur að. Amanda K. Ólafsdóttir, deildarstjóri frístundadeildar Kópavogsbæjar, sagði frá vinnu starfshóps SSH um forvarnir og geðrækt hjá ungmennum á höfuðborgarsvæðinu en í honum eru fulltrúar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Vinna hópsins fellur undir velferðar- og samfélagsmálahluta sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins. Starfshópurinn hefur skilað af sér skýrslu en til stendur að efla samstarfið enn frekar. Aðgerðaáætlun verður svo tilbúin í lok þessa árs. Starfshópurinn hefur sammælst um aukna samþættingu og samvinnu milli sveitarfélaga til að stefna að bættri heilsu og vellíðan ungmenna, bæta gagnaöflun og -miðlun, koma á fót ungmennahúsum sem baklandi ungmenna sem hafa lítið eða ekkert slíkt og að enn frekar verði stuðlað að samfélagi án aðgreiningar.

Engir biðlistar og inngrip við fyrsta tækifæri

Þau Margrét Edda Yngvadóttir og Hjörleifur Steinn Þórisson fjölluðu um Senter-verkefnið í Breiðholti, þar sem hún starfar sem verkefnastjóri og hann sem teymisstjóri. Verkefnið snýst um miðlægt viðbragð lykilstofnana við áhættuhegðun barna og unglinga í Breiðholti. Að allir í nærumhverfi barns leggist á eitt þegar það byrjar að sýna áhættuhegðun við að snúa þróuninni við. Skóla-, frístunda- og velferðarþjónustan, frístundamiðstöðin Miðberg, skólarnir, íþróttafélögin og aðrir lykilaðilar í lífi barna mynda teymi utan um barnið. Margrét og Hjörleifur lýstu ákveðnu verklagi en sögðu að hvert mál miðist ávallt við þarfir hvers einstaklings fyrir sig. „Við viljum vera fljótandi og opin. Hjá okkur eru engir biðlistar og það er inngrip við fyrsta tækifæri. Markmiðið er alltaf að mæta börnum þar sem þau eru stödd, með styrkleika þeirra að leiðarljósi,“ sagði Margrét meðal annars.

„Það hefur aldrei verið mikilvægara að vera með andumræðu heima – andrasisma, andhinseginfordóma, andútlendingahatur, andfötlunarfordóma...“

Starfsfólk félagsmiðstöðva í lykilstöðu til að ræða við ungmenni

Andrea Marel Þorsteinsdóttir, deildarstjóri unglingastarfs í frístundamiðstöðinni Tjörninni, fjallaði um birtingarmyndir stafræns ofbeldis. „Við í félagsmiðstöðvunum erum í lykilstöðu til að geta rætt við unglingana um mál sem að brenna á þeim og hluti sem eru að gerast í þeirra lífi, við höfum til þess tól og tæki, og mikla þjálfun til að leiðbeina þeim. Í starfinu fáum við sterka sýn á hvað er í gangi og sjáum birtingarmyndir stafræns ofbeldis,“ sagði hún. Þá sýndi hún nýlegt dæmi af einni af fjölmörgum síðum sem eru í umferð í dag, þar sem óskað er eftir mynd af „heitri gellu“ gegn annarri af nafngreindu ungmenni. „Þetta er bara smá ábending um að við þurfum að vera á tánum og sífellt í þessu samtali við börnin okkar og unglingana,“ sagði hún. Þá fór hún yfir þær birtingarmyndir stafræns ofbeldis sem blasa við: Kynferðisleg áreitni, stafrænt kynferðisofbeldi, óumbeðin skilaboð, gervi-aðgangar, særandi skilaboð, einelti, áreitni og hótanir.

Krakkarnir þekkja þetta en það þarf að fræða foreldrana

Börn og ungmenni eru mörg farin að lifa og hrærast í heimi netsamskipta löngu áður en foreldrar þeirra átta sig á því og telji sig jafnvel hafa sett börnum sínum skýr mörk. Þetta kom fram í máli Andreu í frístundamiðstöðinni Tjörninni og einnig hjá Sigríði Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Samfok –  samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík og áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna í skóla- og frístundaráði. Báðar lögðu þær því áherslu á að foreldrar kynni sér betur hvað börnin þeirra eru að gera á netinu, kynnist miðlunum sem þau nota og eigi í góðum og opnum samskiptum við börnin sín. „Það sem við þurfum að gera er að fræða hið almenna foreldri. Krakkarnir þekkja þetta en það þarf að fræða foreldrana,“ sagði hún. Þá talaði hún um mikilvægi þess að ræða við börn um þau skilaboð sem þau eru berskjölduð fyrir á netinu. „Það hefur aldrei verið mikilvægara að vera með andumræðu heima – andrasisma, andhinsegin fordóma, andútlendingahatur, andfötlunarfordóma... Það er ekki nóg að það séu ekki fordómar á heimilinu. Við verðum að segja börnunum okkar hvað er rétt og hvað er ekki í lagi.“

Fundarstjórar á velferðarkaffi voru þær Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs og Magnea Gná Jóhannsdóttir, varaformaður velferðarráðs.