Fjórar frístundamiðstöðvar auk Álftamýrarskóla röðuðu sér í fyrstu fimm sætin við val á fyrirmyndarvinnustöðum ársins í flokki starfsstaða með 50 eða fleiri starfsmenn hjá Reykjavíkurborg.
Frístundamiðstöðin Tjörnin var sigurvegari flokksins, þar á eftir komu frístundamiðstöðvarnar Miðberg, Brúin og Kringlumýri. Sameyki stéttarfélag stendur fyrir vali á Stofnun ársins og er þetta í fyrsta sinn sem allir starfsstaðir Reykjavíkurborgar taka þátt. Þá var öllu starfsfólki boðið að taka þátt burt séð frá stéttarfélagsaðild.
Vinnum þannig að fólki líði vel
Athygli vekur að frístundamiðstöðvar raða sér í efstu sætin. Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri Tjarnarinnar, segist þakklát að tilheyra mögnuðum hópi starfsfólks og vill lyfta upp stjórnunarhæfni Soffíu Pálsdóttur, skrifstofustjóri fagskrifstofu frístunda hjá skóla- og frístundasviði. „Hún stýrði líka Hinu húsinu í mörg ár og við gamla ÍTR gengið erum öll að vinna á þann máta að fólki líður vel,“ segir Guðrún.
Sjálf segir Soffía lykilinn að farsælu starfi að starfsmenn og stjórnendur fái umboð til athafna í sínum verkefnum og að nálgun á verkefni séu alltaf unnin með gleði og lausnahugsun. "Þau eiga alltaf það besta skilið og það er okkar að vinna að því, alltaf,“ segir Soffía. Hún bætir við að það sé skemmtilegt að vinna í frístundastarfi þar sem alltaf er verið að huga að styrkleikum barna. Þar fái líka starfsmenn að njóta sinnar sérþekkingar, menntunar og sinna styrkleika í vinnunni.
„Það er líka mikilvægt að gleyma aldrei að við erum að þjónusta borgarbúa og það dýrmætasta sem allir foreldrar eiga sem eru börnin,“ segir Soffía.
Í flokki starfsstaða, hjá borg og bæjum, með 25-49 starfsmenn var Hitt húsið efst en næst á eftir komu leikskólarnir Grænaborg og Lyngheimar. Vesturbæjarlaug var í fjórða sæti og Virknimiðuð stoðþjónustu við Gylfaflöt í því fimmta. Í flokki starfsstaða með undir 25 starfsmenn var Sambýlið við Viðarrima í fyrsta sæti. Af fimm efstu voru þrír íbúðakjarnar; Starengi A, Hraunbæ B og við Móaveg. Þá voru Skíðasvæðin í þriðja sæti.
Í könnuninni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti.