Fyrsta skóflustunga tekin að sérhönnuðu húsi fyrir fatlað fólk

Framkvæmdir Velferð

Sólveig Ragnarsdóttir, Aníta Sól Sveinsdóttir, Sigrún Árnadóttir, frkvstj. Félagsbústaða, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Garðar Reynisson og Björn Eggert Gústafsson. Róbert Reynisson
Fyrsta skóflustunga tekin að Brekknaási

Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og væntanlegir íbúar Sólveig Ragnarsdóttir, Aníta Sól Sveinsdóttir, Garðar Reynisson og Björn Eggert Gústafsson tóku í dag fyrstu skóflustungu að byggingu sex íbúða húss við Brekknaás 6.

Bygging hússins er liður í uppbyggingaráætlun Reykjavíkurborgar fyrir fatlað fólk.

Hannað með tilliti til þarfa væntanlegra íbúa hússins

Húsið og umhverfi þess er hannað með tilliti til þarfa væntanlegra íbúa hússins og er ætlað að auka lífsgæði þeirra til muna. Þessi hópur fólks hefur sértækar þarfir og þarf stuðning til daglegra athafna. Við hönnun íbúðakjarnans var ítarleg þarfagreining unnin í samstarfi við vinnuhóp fagaðila, með aðkomu aðstandenda. Þarfagreiningin lá til grundvallar ákvörðunum hvað varðar efnisval, hljóðvist, stýringu dagsbirtu, læsileika o.fl. og við hönnunina voru þróaðar ýmsar sértækar lausnir.

Áherslur innan fötlunarfræðinnar eru í stöðugri þróun og í hönnun íbúðarkjarnans og lóðarinnar er leitast við að mæta þessari þróun. Húsið verður  640 m2  á einni hæð og auk íbúða verður góð aðstaða fyrir starfsfólk. Áætluð byggingarlok eru í  nóvember 2024.

  • Teiknistofan Stika og Birta Fróðadóttir arkitekt hönnuðu húsið.
  • Lóðahönnun er í umsjón Landmótunar.
  • Hnit verkfræðistofa sá um hönnun burðarþols, lagna og raflagna.
  • E. Sigurðsson ehf. sér um byggingu hússins.   
  • VSB framkvæmdir ehf. annast byggingastjórn og byggingaeftirlit.
Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsbústaða ræðir málin við væntanlegan íbúa við Brekknaás

Það var mikil gleði við fyrstu skóflustunguna í dag og hér má sjá Sigrúnu Árnadóttur spjalla við Björn Eggert Gústafsson sem verður einn af íbúum hússins.

Félagsbústaðir hafa á undanförnum árum byggt eða keypt 17 nýja íbúðakjarna fyrir fatlað fólk víðs vegar um borgina sem eiga það sammerkt að vera byggðir með hliðsjón af áætlunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk. Félagsbústaðir sem eru í eigu Reykjavíkurborgar eru eitt stærsta leigufélag landsins með  tæplega 3.100 félagslegar leiguíbúðir í höfuðborginni.