Framtíðarfyrirkomulag Borgarskjalasafns til skoðunar

Stjórnsýsla

Mynd tekin innan í Borgarskjalasafni. Sýnir bogadregið borð, í forgrunni glærir kassar með sýningarskjölum.

Niðurstöður valkostagreiningar um framtíðarfyrirkomulag Borgarskjalasafns liggja nú fyrir. Þrjár leiðir eru til skoðunar og eftir fund borgarráðs í síðustu viku var óskað umsagna frá hlutaðeigandi aðilum. Trúnaði var aflétt af gögnum málsins að ósk borgarstjóra nú síðdegis.

Á síðasta ári var lögð fram tillaga að stefnumótun fyrir framtíðartilhögun starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur og lagt til að skoða nánara samstarf eða frekari þjónustukaup frá Þjóðskjalasafni Íslands. Stýrihópur ásamt ráðgjöfum KPMG skilaði af sér valkostagreiningu sem byggir á grunnforsendum um húsnæði, mannauð, öryggi, stafræna innviði, fjármagn og umhverfi.

Óskað eftir umsögnum

Í skýrslunni eru tilgreindir þrír valkostir. Sá fyrsti er Borgarskjalasafn framtíðarinnar, þar sem gert er ráð fyrir að Reykjavíkurborg verði áfram rekstraraðili Borgarskjalasafns og standi undir kostnaði við fjárfestingar. Annar valkosturinn er samstarf Borgarskjalasafns framtíðarinnar og Þjóðskjalasafns, með áherslu á samnýtingu á húsnæði, stafrænum innviðum, mannauði og fleiru. Þriðji valkosturinn er flutningur verkefna til Þjóðskjalasafns, þar sem ábyrgð skjalavörslu og eftirlit með henni færist til Þjóðskjalasafns en menningarhlutverk Borgarsögusafns verður eflt.

Óskað var eftir umsögnum frá stafrænu ráði Reykjavíkurborgar, menningar,- íþrótta- og tómstundaráði, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni. Þær munu liggja fyrir þegar málið verður aftur tekið fyrir á fundi borgarráðs næsta fimmtudag, 2. mars.