Fiona Elizabet Oliver hefur verið tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2023 í flokki framúrskarandi kennara. Tvö þróunarverkefni í Reykjavík hafa einnig hlotið tilnefningu það eru Hinsegin félagsmiðstöð S78 og Tjarnarinnar og verkefnið, Viltu tala íslensku við mig? Samstarfsverkefni Íslenskuþorpsins og grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi.
Í flokki framúrskarandi kennara eru Fiona Elizabet Oliver, kennari við Víkurskóla, tilnefnd ásamt fjórum öðrum kennurum. Verðlaun eru veitt til kennara sem þótt hafa stuðlað að menntaumbótum sem þykja skara fram úr. Alls voru fimm kennarar víðs vegar um landið tilnefndir.
Byggir á sjálfsmati, hvatningu og fjölbreytileika
Tilnefning Fionu byggir á þróun hennar á verkefnamiðuðu námi og leiðsagnarnámi í Víkurskóla. Í umsögninni segir að hún hafi náð miklum árangri í kennslu sinni, meðal annars með því að nota aðferðir leiðsagnarnáms sem byggja á uppbyggjandi leiðsögn, sjálfsmati, hvatningu og fjölbreytileika. Þá hefur hún tekið virkan þátt í að þróa verkefnamiðað nám í skólum en hún hefur þróað samþættingarverkefna sem kallast Uglur.
„Fiona hefur verið kennarinn minn í 3 ár og ef það er einhver sem á skilið þessi verðlaun þá er það hún fyrir að standa alltaf þétt við bakið á nemendum sínum og sína öllum umburðarlyndi og virðingu.“
Gleður alla í kringum sig
Í tillögum að tilnefningunni kom einnig fram:
„Fiona er framúrskarandi kennari sem mætir nemendum sínum af virðingu og fagmennsku … Hún er frábær samstarfsfélagi, styðjandi í teymisvinnu, umburðarlynd og hefur smitandi hlátur sem gleður alla sem í kringum hana eru.“
„Fiona nær vel til nemenda sinna, hefur mikinn metnað fyrir þeirra hönd, er hvetjandi og sér styrkleika hvers nemenda og vinnur með þá. Fiona nýtur mikillar virðingar nemenda sinna og þeir bera traust til hennar, leita til hennar og hún leiðbeinir þeim á jákvæðan og uppbyggjandi hátt í að ná markmiðum sínum.“
Á myndinni situr Fiona á milli samstarfskvenna sinna í leiðsagnarnáminu í Víkurskóla.