Fengu Evrópustyrk til að styðja samnorræna samvinnu ungmenna

Skóli og frístund

Ungmennaráð Reykjavíkur fundar með borgarstjórn.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur hlaut í vikunni stryk frá Erasmus+ fyrir verkefnið U-LYNC: Urban Life of Young People in the Nordic Countries – Challenges and Opportunities. Styrkurinn er upp á 250 þúsund evrur eða rúmar 38 milljónir íslenksra króna.

Unnið að virkri þátttöku og áhrifum ungs fólks

Styrkurinn mun gera sviðinu kleift að styðja hóp ungmenna úr Reykjavík og níu öðrum borgum á Norðurlöndunum til þess að vinna saman og ræða um líf ungmenna í þessum borgum. Samvinnan mun fara fram á fjarfundum og innan hverrar borgar fyrir sig. Þau munu svo koma saman á ungmennaráðstefnu í Reykjavík í mars 2024. 

Á ráðstefnunni gefst ungmennunum tækifæri til að öðlast aukna þekkingu og færni í að verða virkir og sýnilegir þátttakendur í eigin samfélagi. Vonir standa til að afrakstur ráðstefnunnar verði svo kynntur fyrir viðeigandi ráðamönnum allra borganna að ráðstefnunni lokinni til að tryggja að raddir ungmenna heyrist. Styrkurinn er viðurkenning á mikilvægi verkefnisins og vonir standa til að U-LYNC leiði af sér varanlegar breytingar og stuðli að samfélagi sem einkennist af samkennd, virkri þátttöku og áhrifum ungs fólks. 

Niðurstöður ungmennaráðstefnunnar verða innlegg á samnorrænu ráðstefnunni Storbyens hjerte & smerte sem haldin verður í Reykjavík í september 2024. Undirbúningur og framkvæmd þeirrar ráðstefnu er samvinnuverkefni skóla- og frístundasviðs og velferðasviðs Reykjavíkurborgar. 

Myndin með fréttinni var tekin þegar ungmennaráð Reykjavíkur fundaði með borgarstjórn fyrr á þessu ári.