Efla gagnrýni barna í miðlanotkun

Skóli og frístund

Miðlalæsi í Tjörninni

Miðlalæsisvika í frístundaheimilum Tjarnarinnar er nýafstaðin en þá er áhersla lögð á verkefni þar sem áhrif miðla á börn eru skoðuð og hvernig börn túlka miðla í umhverfi sínu.

Börn oft ómeðvituð um hættur smelluvegferða

Ljóst er að börnin eru mjög virkir og forvitnir miðlanotendur. Þau eru fljót að verða fær á miðla og vilja gera allskonar, lesa, fara í leiki og skoða endalaust – og fara oft í einhverja smelluvegferð þegar þau prófa sig áfram. Oftast eru þau ómeðvituð um hætturnar sem fylgja þessum smelluvegferðum um óravíddir internetsins. „Þess vegna ræðum við þau um ábyrga netnotkun og um rafrænt fótspor – og sendum foreldrum og forsjáraðilum þeirra fræðsluefni svo þeir geti bæði glöggvað sig á þessu sjálfir og fylgt þessu eftir heima fyrir. Við vitum líka að börn meðtaka gríðarlegt magn efnis frá fjölmiðlum á hverjum degi – miklu meira en við fullorðna fólkið gerum okkur oft grein fyrir,“ segir Steinunn Grétarsdóttir, deildarstjóri barnasviðs Tjarnarinnar. Steinunn segir áhrifin einna koma allstaðar að – úr sjónvarpi, blöðum, ljósmyndum, símum, interneti, öppum, kvikmyndum, hlaðvörpum og upplýsingum af pakkningum, skiltum og víðar.

Framleiðendur nota ýmsar leiðir til að koma sínu á framfæri

„Þess vegna notum við auglýsingar og markaðssetningu sem beint er að börnum í gegnum hina ýmsu miðla sem útgangspunkt til að ræða við börnin, en þetta er efni sem þau skilja vel og hafa virkilegan áhuga á. Þennan vinkil tökum við vegna þess að miðlalæsið skarast  inn á önnur svið, eins og t.d. markaðsfræði og neytendavernd, en auglýsendur og framleiðendur notfæra sér allskonar miðla grimmt til þess að halda að okkur vörum sínum.“ Steinunn segir þá vel meðvitaða um valdið sem er fólgið í því að nota sem fjölbreyttastar leiðir og miðla til þess að hafa áhrif á okkur.

Tækifæri til að ræða falsfréttir og áreiðanleika upplýsinga

Hún segir að með því að ræða við börnin um þetta efni sé hægt að leggja mikilvægan grunn sem gerir þeim kleift að ræða við þau um flóknari og áleitnari málefni eins og áreiðanleika upplýsinga, falsfréttir og hina ýmsu áhrifavalda sem herja á þau úr öllum áttum. „Þannig leggjum við grunn að því að efla miðlalæsi þeirra, en miðlalæsi er mikilvæg forsenda þess að einstaklingar geti verið virkir og upplýstir þegnar í lýðræðissamfélögum í dag,“ segir Steinunn. Miðlalæsisvikan sló í gegn hjá bæði börnunum og starfsmönnunum eins og alltaf og líklegt að börnin séu betur upplýstir og gagnrýnir neytendur á miðla og upplýsingar en áður.