Drottningin af Höfða- „Með jákvæðni kemur allt hitt!“

Mannlíf

Anna Karen ver svo miklum tíma í Höfða að viðurnefnið „Drottningin af Höfða“ hefur oft heyrst.
Anna Karen Kristinsdóttir, móttökufulltrúi Reykjavíkurborgar, stendur í tröppunum við Höfða. Svartklædd, heldur í handriðið. Snjór og kalt úti.

Anna Karen Kristinsdóttir, móttökufulltrúi Reykjavíkurborgar, hefur starfað hjá borginni í 36 ár. Þessi litríka orkusprengja samþykkti að gefa okkur innsýn í líf sitt og starf og barst talið meðal annars að reimleikum, ánamöðkum og nafntoguðum einstaklingum.

Anna Karen hóf störf hjá Reykjavíkurborg 9. september árið 1986 og hefur unnið í Ráðhúsi Reykjavíkur síðan það var opnað árið 1992. Þegar hún kom til starfa hjá borginni var Davíð Oddsson borgarstjóri sem þýðir að hún hefur starfað með ellefu borgarstjórum en þeir hafa alls verið 22 talsins. Hefur hún því unnið með helmingi allra borgarstjóra Reykjavíkur. 

„Davíð var frábær. Allir gátu labbað inn til hans og hann heilsaði öllum. Samstarf við alla borgarstjórana hefur verið gott,“ bætir Anna Karen aðspurð við en tekur sposk undir að vissulega hafi miklir karakterar verið í þeim hópi. „Maður aðlagar sig öllu og öllum. Þetta er allt flott fólk en mjög ólíkt. Hraðinn var mikill þegar Hanna Birna var hér, Jón Gnarr var stórkostlegur og öll hafa þau komið með sinn karakter og sjarma,“ segir hún hlýlega. 

Vinnur náið með borgarstjóra 

Anna Karen starfaði í bókhaldi þegar skrifstofur borgarinnar voru í Pósthússtræti. Síðar fór hún á rekstrar- og þjónustuskrifstofu og loks í núverandi starf sem móttökufulltrúi borgarinnar. Hún vinnur náið með borgarstjóra og sér meðal annars um undirbúning á öllum móttökum hans auk þess að sinna reikningagerð, innkaupum og ýmsu fleiru. Þá er hún oft með leiðsagnir í Höfða og er raunar svo mikið þar að viðurnefnið „Drottningin af Höfða“ hefur oft heyrst. „Ég er víða kölluð þetta og hef gaman af því. Fyrir mér er Höfði ekki bara móttökuhús borgarstjóra, það er svo mikil saga falin í þessu húsi. Í gær fékk ég einmitt gefins teiknaða mynd af Höfða. Þetta er gömul VISA auglýsing, mjög skemmtileg mynd sem fer beint í „Hall of fame“ þar sem ég geymi skemmtilegar myndir tengdar starfinu.“ 

Eðli málsins samkvæmt hefur Anna Karen upplifað ýmislegt í starfi sínu og hitt marga nafntogaða einstaklinga. Í „Hall of fame“ er til dæmis mynd af henni með Mike Pence, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem heimsótti Ísland árið 2019. „Ég hef aldrei upplifað neitt í líkingu við undirbúninginn fyrir þá heimsókn og áður en hann kom, komu margir undanfarar frá Hvíta húsinu og bandaríska utanríkisráðuneytinu. Ég var beðin um leiðsögn fyrir hann í Höfða en það vatt upp á sig og stórir viðburðir heimsóknarinnar voru færðir þangað. Þetta var í mínum verkahring og var algjör bilun en svakalega skemmtilegt,“ segir Anna Karen með áherslu. Meðal annarra þekktra einstaklinga sem hún hefur hitt eru Mads Mikkelsen, Yoko Ono, Lady Gaga, Russell Brand, Condoleezza Rice og François Hollande. 

En hvað skyldi standa upp úr í þessu lifandi starfi? „Mér finnst ég svo heppin því mér finnst starfið skemmtilegt og það stendur upp úr að hitta alltaf nýtt fólk. Það hentar mér mjög vel að vera á hlaupum um allt að gera og græja. Ég á erfitt með að sitja á sama stað við tölvu allan daginn,“ segir hún með áherslu. „Nú er ég til dæmis að setja upp nýtt eldhús í Höfða og svo er ég í viðburðastjórn Ráðhússins.“ 

Indæll en stríðinn húsdraugur í Höfða 

En aftur að Höfða. Sögur hafa gengið um reimleika þar og kann Anna Karen ýmsar draugasögur. „Einhver kona var í Ráðhúsinu og fylgdi gjarnan næturvörðunum. Ég kann lítið frá henni að segja en í Höfða finn ég mjög mikið fyrir þessu. Ég hef einu sinni verið þar ein og geri það ekki aftur. Ég sá ekkert en ég heyrði alls konar. Hún Sólborg er bara að stríða okkur,“ segir Anna Karen og á þar við húsdrauginn, Sólborgu Jónsdóttur. Anna Karen neitar þó að segja nánar frá henni. „Ég gerði samning við Sólborgu árið 2009 um að ég myndi ekki segja sögu hennar aftur. Saga hennar er harmsaga og fólk getur flett henni upp ef það vill.“ 

Ýmislegt hefur þó gengið á í Höfða sem Anna Karen er tilbúin að segja frá. „Í eldhúsinu er til dæmis kantur fyrir glasarekkann en í tvígang hefur eitt glas dottið, sem ætti ekki að vera hægt og tveir húsverðir hafa sagt sögur af því þegar þeir voru felldir í þrepi í tröppunum uppi. Konu sem sér um að þrífa húsið líður mjög vel þarna og situr oft ein og prjónar en hún hefur til dæmis séð sessu í sófa við hlið sér lyftast upp eins og manneskja sé að standa upp, þótt enginn sé á staðnum nema hún,“ segir Anna Karen. Þá hafi hún sjálf eitt sinn ætlað að fara með postulínsdúkku úr Höfða sem hafði verið þar lengi. „Þegar ég var komin út á planið var eins og rifið væri í mig svo ég fór aftur upp með dúkkuna og mun ekki snerta hana aftur. Svo var ég einu sinni með starfsfólki Listasafns Reykjavíkur á mánudagsmorgni að skipta út listaverkum. Tveir stórir kertastjakar voru uppi á borði og allt í einu sá ég að búið var að kveikja á kertunum. Ekkert okkar hafði gert það svo Sólborg hafði greinilega kveikt á þeim. Þetta var voða fallegt af henni. Við Sólborg erum vinkonur, hún er indæl og passar húsið fyrir okkur.“ 

Setur sér mörk þegar hún bjargar ánamöðkum 

Anna Karen er 56 ára en er farin að huga að starfslokum. „Ég fer á 95 ára regluna í mars 2024 en fæ reyndar ekki eftirlaun fyrr en ég verð sextug svo kannski vinn ég fram að því,“ segir hún. Aðspurð segir hún að hefði hún ekki unnið hjá borginni hefði leiðsögn komið til greina. „Eitthvað sem felur í sér samskipti við fólk!“ 

En hver er Anna Karen fyrir utan vinnuna? „Ég elska mat; að elda og búa alls konar til. Ég súrsa til dæmis og svo rækta ég basilíku og bý til pestó sem ég á alltaf til taks í gjafir. Ég er mikill ræktandi og hef ræktað grænmeti lengi og svo er ég náttúruunnandi. Ég fer í kraftgöngur á hverjum morgni og er að byrja aftur að stunda fjallgöngur, sem er mjög skemmtilegt. Útivera, náttúra, tónlist og dýr, það er ég. Ég á hund og er mikill dýravinur. Ég beygi mig eftir ánamöðkum á göngustígum, jafnvel þótt þeir séu tættir, þá er betra fyrir þá að deyja úti í grasinu en á stígnum þar sem allir ganga og hjóla yfir þá. En þegar það rignir og það eru maðkar um allt, þá set ég mér mörk. Þá má ég taka upp kannski 30 stykki. Ég veit að þetta er bilun,“ segir hún hlæjandi. 

Slógu óvart í gegn 

Anna Karen er líka mikil tónlistarkona og söng áður með nokkrum hljómsveitum. „Ég var til dæmis í Kandís með Dan Cassidy fiðluleikara og fleirum. Við fórum í annað sæti á fyrsta vinsældarlista Rásar tvö með lagið Another Saturday Night í reggae útgáfu. Það var mjög skemmtilegt. Við slógum í gegn, óvart, var fyrirsögnin í einu dagblaði,“ rifjar Anna Karen upp en hún söng til dæmis oft á Gauknum og Blúsbarnum og kynntist þá söngkonunni Evu Cassidy heitinni og urðu þær miklar vinkonur. „Ég kem ekki lengur fram opinberlega en sumir segja: „Einu sinni söngkona, alltaf söngkona,“ svo þegar ég er spurð hvort ég syngi ennþá, þá segi ég ekki nei. Ég syng líka alls staðar, heima og í bílnum,“ segir hún sposk og játar aðspurð að hún hafi líka sungið fyrir Sólborgu í Höfða. 

Við spyrjum hana að lokum um mottó, í vinnu og lífinu sjálfu. „Jákvæð orka og ást. Alltaf,“ segir hún strax. „Og bara að vera jákvæð, með jákvæðni kemur allt hitt!“