Buðu á stefnumót um gervigreind í skólum

Skóli og frístund

Stefnumót við gervigreind.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Menntavísindasvið Háskóla Íslands buðu áhugafólki um skólaþróun á Stefnumót við gervigreind í menntun í byrjun vikunnar. Þar var þátttakendum boðið að hlusta á erindi og taka þátt í málstofum um það hvernig gervigreind getur nýst í menntun, hvernig hagnýta megi þessa nýju tækni og einnig hvaða áhrif hún geti haft á túlkun á hugtakinu mennska.

Gervigreind nýtist við undirbúning kennslu

Augljóst er að gervigreindin er nú þegar farin að nýtast fagfólki við undirbúning kennslu en spurningar vöknuðu um það hvernig best sé að þjálfa upp hæfni og færni nemenda og fagfólks svo best sé. Einnig var því velt upp að notkun á gervigreind og annarri tækni getur verið snúin vegna persónuverndarlaga og oft óskýrt fyrirfram hver ramminn sé í síbreytilegu umhverfi. Boðið var upp á streymisútsendingu frá erindunum og er upptaka af þeim aðgengileg á netinu fyrir áhugasöm.

Mennskan, hagnýting og áskoranir

Eyja Margrét Jóhönnu Brynjarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands fjallaði um það hvort gervigreind væri ógn við mennskuna. Inga Amal Hasan frá Persónuvernd kynnti hverju þarf að huga að við notkun gervigreindar í skólastarfi. Ragnar Þór Pétursson, kennari í Norðlingaskóla, fór yfir áhrif gervigreindar í skólastarfi, hvar við erum stödd og hvert við stefnum. Að lokum tók til máls Loftur Árni Björgvinsson, framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskóla Snæfellinga, og talaði um hver hagnýting gervigreindar væri í kennslu og skýrði frá reynslu nýjungagjarna kennarans.