Þar sem verulegar breytingar hafa orðið á sorphirðu í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægt að skoða heildarmyndina í tengslum við gjöld, ekki bara eina tunnutegund eða eina tegund húsnæðis. Gjöldin tengjast tunnufjölda, stærð og flokkun. Við samanburð milli sveitarfélaga er einnig mikilvægt að horfa til hirðutíðni en lægri tíðni kallar á fleiri eða stærri tunnur.
Hagrænum hvötum beitt til flokkunar
Í Reykjavík hefur verið innleidd flokkun og söfnun á fjórum úrgangsflokkum við heimili í samræmi við breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Með nýlegum lagabreytingum var einnig heimilað að færa gjald á milli úrgangsflokka og beita þannig hagrænum hvötum til flokkunar.
Við ákvörðun gjaldskrár fyrir sorphirðu í Reykjavík var því 50% af kostnaði við hirðu á matarleifum og 20% af kostnaði við hirðu á plasti og pappír færður yfir á blandaða sorpið sem skýrir 70% hækkun á þeirri tunnu milli ára. Breyting á gjaldi fyrir matarleifar, plast og pappír verður eftirfarandi árið 2024 samanborið við 2023:
- Matarleifar 17,4%
- Plast -9,2%
- Pappír -15,1%
Hægt að lækka gjöldin í fjölbýli með aukinni flokkun
Um 80% af húsnæði í Reykjavík er í fjölbýli. Íbúar í fjölbýli samnýta sorpílát og hirðugjöld taka mið af fjölda, stærð og tegund sorpíláta. Með aukinni flokkun og fækkun tunna fyrir blandað sorp geta íbúar í Reykjavík þannig lækkað hjá sér hirðugjöldin.
Svigrúm íbúa í sérbýli, sem eru um 20% húsnæðis í Reykjavík, til lækkunar á hirðugjöldum er hins vegar minna. Vegna breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs er ekki lengur heimilt að safna pappír og plasti á grenndarstöðvum og þeir íbúar í sérbýli sem nýttu sér það munu finna fyrir mestri hækkun.
Áætlaðar heildartekjur af sorphirðugjöldum
- Áætlaðar heildartekjur Reykjavíkurborgar af sorphirðugjöldum vegna hirðu við heimili hækka um 20% milli ára, úr 1.855 m.kr. í 2.234 m.kr.
- Áætlaðar heildartekjur af gjaldi vegna reksturs grenndar- og endurvinnslustöðva hækka um 2% milli ára, úr 936 m.kr. í 956 m.kr.
- Áætluð hækkun tekna af þessum báðum gjöldum, hirðu við heimili og reksturs grenndar- og endurvinnslustöðva, er því um 14%. Það er áætluð jafnaðar hækkun á hirðugjöldum í Reykjavík milli ára.
- Vegna fjölgunar íbúða í Reykjavík um 2,4% er hækkun á hverja íbúð um 12%.
Fjórir flokkar á hverju heimili