Í leikskólanum Hálsaskógi í Breiðholti er rík hefð fyrir umhverfismennt, jafn utandyra sem innan og er útinám stór þáttur í starfinu. Framkvæmdir standa yfir á leikskólanum og er því hluti skólans staðsettur tímabundið í Ævintýraborg í Vogabyggð.
Í Vogabyggð hafa börnin og starfsfólkið til afnota tvö rafmagnshjól og undanfarið hafa börnin fengið að fara reglulega í hjólaferðir. Mikil ánægja ríkir með ferðirnar bæði hjá börnum og starfsfólki, sem segir svona hjól „verða sett á óskalistann“ þegar „heim verði komið“ í Breiðholtið.
Hjólin eru skemmtileg viðbót við fjölbreytt útinám og til gamans fylgja með nokkrar athugasemdir sem börnin hafa látið falla um hjólaferðirnar:
„Það er rosalega gaman að keyra hratt!“
„Allir eru með hjálm, það er flott!“
„Við finnum góðan stað til að leika.“
„Það er skemmtilegt að horfa.“
„Það besta er að hjóla til baka.“
Sannarlega sumarleg frétt frá börnunum og starfsfólkinu í Hálsaskógi.