Avaaraq Olsen, borgarstjóri og Ole Jakobsen, borgarritari Nuuk komu í heimsókn í vikunni til að kynna sér meðal annars skráningarkerfið Völu, ásamt því að fá kynningu frá Mixtúru, sköpunar- og upplýsingatækniveri skóla- og frístundasviðs.
Kynntu sér viðverukerfi og tækifæri í upplýsingatækni
Borgarstjóri og borgarritari Nuuk nýttu lausan dag eftir Arctic Circle ráðstefnuna sem haldin var í Hörpu á dögunum til að kynna sér starfsemi skóla- og frístundasviðs.
Gestunum þótti mikið til koma og sáu tækifæri fyrir grænlenskt skólakerfi þegar þeir skoðuðu skráningarkerfi Völu og sem heldur utan um alla skráningu á viðveru, innritun, reikningagerð og samskiptum við foreldra leikskólabarna í borginni. Í Völu er einnig haldið utan um frístundastarf og skólamáltíðir grunnskólabarna.
Gestirnir voru einnig mjög áhugasamir um það fjölbreytta starf sem þar er unnið er með leik- og grunnskólabörnum í sköpun og upplýsingatækni sem starfskonur Mixtúru kynntu.
Að lokum fóru gestirnir í heimsókn í Grænuborg þar sem Styrmir Dýrfjörð og Hólmfríður Júlíana Pétursdóttir tóku á móti þeim og kynntu notkun á upplýsingatækni með ungum börnum.