Borgarráð til í að lækka gjaldskrár vegna kjarasamninga

Fjármál Stjórnsýsla

Róbert Reynisson
Mynd tekin inn um glugga á Hörpu, sést aftan á nokkur börn sem standa í gluggunum.

Reykjavíkurborg mun draga úr gjaldskrárhækkunum vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur þannig að þær verði ekki hærri en 3,5% á næsta ári, 2024. Þetta var samþykkt í borgarráði í dag og er tilgangurinn að stuðla að lægri verðbólgu og langtíma kjarasamningum á hófsömum nótum.

Forsendur tillögunnar sem samþykkt var í dag eru samflot og samstaða Reykjavíkurborgar, ríkis og annarra sveitarfélaga, verkalýðshreyfingar og aðila á vinnumarkaði um samstillta kjarasamninga sem hafi það að meginmarkmiði að stuðla að kaupmætti og vinna gegn verðbólgu. 

„Samfélagið á mikið undir því að standa vörð um kjör fólks og ráða niðurlögum verðbólgunnar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Lykillinn að því er að ná farsælum kjarasamningum til lengri tíma. Ég átti gott samtal við forseta Alþýðusamband Íslands í byrjun vikunnar, sem hvatti til þess að afstaða borgarinnar til þess að stilla gjaldskrárbreytingum í hóf lægi skýrt fyrir. Það er staðfest með þessari samþykkt borgarráðs og ég er ánægður með að algjör samstaða var um þessa afstöðu, þvert á flokka.“ 

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir að borgin sé tilbúin til þess að draga úr boðuðum gjaldskrárhækkunum, að því gefnu að aðilar vinnumarkaðar nái saman um hóflegar launahækkanir. 

Einar segir lykilatriði að ná niður verðbólgu og háu vaxtastigi. Það sé verkefni sem allir þurfi að leggjast á eitt um til þess að leysa.