Borgarráð - Fundur nr. 5730

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 21. desember, var haldinn 5730. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um eldgos á Reykjanesskaga. MSS23110093

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. desember 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Gufuness, 1. áfanga, vegna Jöfursbáss, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23120026

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að setja upp bílastæði til að mæta þörfum íbúa. Ljóst er að samgöngukerfið er óáreiðanlegt og þörf er á því að efla almenningssamgöngur til muna svo að vistvæn svæði geti raunverulega orðið að möguleika. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Breytingin felur í sér að koma á fyrir bílastæðum á lóð til að mæta þörfum íbúa í hverfinu. Koma á fyrir 61 bílastæði á lóðinni. Upphaflega áttu engin bílastæði að vera innan lóðar en það var auðvitað ekki raunhæft á þessum stað. Þarna gengur einn strætisvagn og þarna á engin borgarlína að koma.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. desember 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2023 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Laufásveg 19, 21og23 og Þingholtsstræti 34, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23100130

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að vandað verði til verka þannig að þær breytingar sem verði gerðar á húsnæðinu henti til búsetu en hér er um að ræða atvinnuhúsnæði. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. desember 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á hverfisskipulags Árbæjar vegna Selásbrautar 98, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Björn Axelsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23020273

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjölmargar athugasemdir hafa borist og flestar af svipuðum meiði. Mótmælt er fyrirhugaðri stækkun lóðar við Selásbraut 98 vegna fjölda íbúða sem koma á fyrir á byggingarreitnum sem eru mun fleiri en upphaflega var gert ráð fyrir og nær húseignum í Suðurási og Vesturási. Talið er að svæðið í nálægð við Selásskóla beri ekki þá bílaumferð sem mun bætast við auk þeirrar umferðar sem mun fylgja þeim 70-80 íbúðum sem nú þegar er byrjað að reisa við suðurenda Selásbrautar eins og segir í einni innsendri athugasemd. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þetta þurfi að skoða vandlega. Íbúar þarna þekkja vel reitinn og vita hvað þeir eru að segja.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki uppfærða aðgerðaáætlun Græna plansins 2024-2025 sem unnin hefur verið af starfshópi Græna plansins og ábyrgðaaðilum aðgerða á sviðum Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Hulda Hallgrímsdóttir og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23120114

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Komið er inn á stafræna stefnu og vill fulltrúi Flokks fólksins bóka um að skóla- og frístundasvið hefur orðið eftir á í stafrænni vegferð borgarinnar. Af 34 lausnum sem eru að mestu sagðar tilbúnar er meirihluti þeirra einhver mælaborð, kort og dagatöl. Langfæst stafræn verkefni hafa að gera með skóla og frístund og umhverfis- og skipulagsmál sem dæmi. Þau svið sem annast beina þjónustu við fólkið hefðu átt að vera fremst í stafrænni vegferð borgarinnar. Í skýrslunni aðgerðaáætlun Græna plansins segir að stafræn umbreyting og rafvæðing þjónustuferla eigi að vera til að bæta þjónustu við íbúa og færa hana nær s.s. bjóða upp á rafrænar umsóknir í stað umsókna á pappírseyðublöðum. Það sem stendur í skýrslunni sem hér er lögð fram er ekki beint það sem sést í raunveruleikanum. Stefnt er að kolefnishlutleysi 2030, eða eftir um 6 ár. Markmiðið er einnig að stuðla að jöfnuði en eins og vitað er hefur ójöfnuður og fátækt aukist í Reykjavík. Sjálfsagt er að hafa háleit markmið en það er ekki nóg að setja þau á blað og láta svo þar við sitja.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki uppfærða húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. Með áætluninni er sett fram á einum stað greining á stöðu húsnæðismála og yfirlit aðgerða Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum. Þær eiga það sammerkt að mæta áskorunum á húsnæðismarkaði og stuðla að því að ná markmiðum borgarinnar í húsnæðismálum. Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að ganga frá til útgáfu og jafnframt að undirbúa stafræn skil áætlunarinnar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Haraldur Sigurðsson, Óli Örn Eiríksson, Ívar Örn Ívarsson og Hilmar Hildar Magnúsarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23120067

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er í senn róttæk, félagsleg og stórhuga. Reykjavík hefur með átaki í skipulagi tryggt fjölbreytt byggingarsvæði fyrir allar gerðir íbúða með áherslu á litlar og meðalstórar íbúðir á grundvelli markmiða um húsnæði fyrir alla og félagslega blöndun og aðalskipulags Reykjavíkur. Húsnæðisáætlun borgarinnar tekur nú mið af samningi ríkis og Reykjavíkurborgar um húsnæðissáttmála til næstu tíu ára. Húsnæðisáætlun veitir kærkomna yfirsýn yfir framgang þessara mála og leggur grunn að því að metnaðarfull markmið borgarinnar gangi eftir. Áætlunin tryggir að markmið um að byggingarmöguleikar fyrir allt að 3.000 íbúðir liggi fyrir á hverjum tíma til að 16.000 íbúðir geti byggst upp í borginni á næsta áratug. Úthlutunaráætlun um lóðir og áætlanir um lykiluppbyggingarsvæði styðja við að áætlunin gangi eftir þótt ljóst sé að hátt vaxtastig geti haft umtalsverð áhrif á byggingarhraða fyrstu misserin. 

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa gríðarlegum vonbrigðum með takmarkaða uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík. Húsnæðissáttmáli ríkis og borgar gerði ráð fyrir 2.000 íbúðum árlega, en samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er aðeins ráðgert að byggðar verði 800 íbúðir í Reykjavík á næsta ári. Betur má ef duga skal.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þörfin fyrir húsnæði er mikil og nauðsynlegt er að byggja á félagslegum grunni. Yfir 1.000 manneskjur bíða á biðlista eftir húsnæði hjá borginni, leigumarkaðurinn hér á landi er lítið regluvæddur og fjöldi íbúða hefur verið nýttur til skammtímaleigu fyrir ferðamenn með slæmum afleiðingum fyrir leigjendur sem þurfa á heimili að halda sem hentar til langtímabúsetu. Áætlað er að Reykjavíkurborg greiði út um 1,7 milljarð í sérstakan húsnæðisstuðning á næsta ári. Á meðan nauðsynlegt er að styðja leigjendur sem greiða allt of háan húsnæðiskostnað, þá er kostnaðarsamt að greiða niður okurleigu og því nauðsynlegt að setja áhersluna á uppbyggingu félagslegs húsnæðis sem er gott og á viðeigandi verði fyrir íbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Eins og fram kemur í áætluninni hefur ekki verið sett fram sérstök greining á árangri áætlunarinnar í heild en settar eru fram upplýsingar í áætluninni sjálfri sem mæla m.a. fjölda fólks á biðlistum eftir húsnæði og þörf fyrir þjónustu. Það eru þessir viðkvæmu hópar sem fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að erfitt er að greina bein áhrif af áætlun sem þessari á stöðu þeirra. Íbúðaþörf fyrir öryrkja hefur t.d. ekki verið metin. Flokkur fólksins lagði til fyrir skemmstu að framkvæmd yrði úttekt á búsetuhögum og búsetuúrræðum öryrkja í Reykjavík með áherslu á þá aðila sem eru á leigumarkaði. Tillagan var lögð fram með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir ÖBÍ réttindasamtök. Öryrkjar, einstæðir foreldrar sem leigja, eru þeir sem eiga hvað erfiðast á húsnæðismarkaði. Reglulega berast einnig fréttir af sárri húsnæðisþörf eldra fólks. Það er dágóður hópur af eldri borgurum sem verða að dvelja áfram á sjúkrahúsi þótt þau séu ekki veikir lengur því ekki er til húsnæði fyrir þau. Kjarni málsins er sá að það hefur jú verið byggt í Reykjavík en ekki nærri, nærri nóg. Staða á byggingarmarkaði versnar samkvæmt nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar m.a. vegna gjaldþrots fyrirtækja.

    Fylgigögn

  7. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-508/2021. MSS22110181

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. desember 2023, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að veita lögmönnum Situs ehf. og Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. umboð til að reyna að ná samkomulagi við Íslenska aðalverktaka hf. um greiðslu fjárhæðar skaðabóta með þeim hætti sem greinir í hjálögðum bréfum félaganna, dags. 18. desember 2023.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23120122

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 18. desember 2023, þar sem skýrsla um áhrif COVID-19 og viðbrögð Reykjavíkurborgar í heimsfaraldri er lögð fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

    Bjarni Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23120118

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þakkað er fyrir ítarlega og greinagóða skýrslu um áhrif COVID-19 og viðbrögð borgarinnar í heimsfaraldri. Það er mikilvægt að búið sé að safna saman því sem vel gekk og því sem betur hefði mátt fara. Ekki aðeins til þess að halda því til haga, heldur einnig svo við getum lært af sögunni. Skýrslan dregur saman ótrúlega margt af því magnaða starfi sem unnið var á hverjum degi af starfsfólki borgarinnar og stjórnendum í framlínunni. Það er ekki annað hægt en að fyllast stolti yfir þessu samstillta átaki og árangri sóttvarnaraðgerða. Reykjavíkurborg og starfsfólk hennar sýndi ótrúlegan sveigjanleika, úthald, styrk og seiglu. Fyrir það verður seint full þakkað.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð er fram viðamikil skýrsla um COVID-19 og hvernig pestin snerti starfsemi borgarinnar og borgarbúa auðvitað. Fulltrúi Flokks fólksins hafði aldrei heyrt af því að skýrsla sem þessi væri í vinnslu. Það kom því á óvart að sjá þetta mikla gagn í dagskrá borgarráðs fyrir fund 21. desember. Ákvörðun um að fara í þessa vinnu var tekin af yfirstjórn borgarinnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta vera eins konar sagnfræðileg skýrsla, heimildaskýrsla sem er kannski mest hugsuð til að geyma upplýsingar fyrir komandi kynslóðir. Hvert svo sem markmið og tilgangur var með gerð svona skýrslu þá má ætla að tilvist hennar sé flestum þóknanleg. Þeir sem unnu skýrsluna voru upplýsingafulltrúar borgarinnar eftir því sem Flokkur fólksins fékk upplýsingar um og er kostnaður við skýrsluna aðeins vinnuframlag þessara starfsmanna.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu að uppfærðum tímabundnum reglum um ráðningar hjá Reykjavíkurborg og þær taki gildi frá og með 1. janúar 2024 og að gildistími þeirra verði út árið 2024. Tilgangur ráðningareglnanna er að auka enn frekar yfirsýn með ráðningum og aðhald með ráðningum í störf og draga úr launakostnaði. Jafnframt er lagt fram erindisbréf fyrir starfshóp um ráðningarýni.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Halldóra Káradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100142

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram tillögu við fjárhagsáætlun ársins 2024, um ráðningabann í miðlægri stórnsýslu. Tillagan var felld af öllum fulltrúum meirihlutans. Fyrirliggjandi breyting á tímabundnum reglum vegna ráðninga, virðist skref í rétta átt þó hún gangi ekki eins langt og fulltrúar Sjálfstæðisflokks hefðu talið æskilegt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Margt er gott í þessum reglum. Umfram allt þarf að nýta mannauðinn svo draga megi úr aðkeyptri þjónustu/ráðgjöf sem komin er úr böndunum og ráðningum sem ekki er þörf á. Stjórnendur skulu m.a. horfa til þess hvort annað starfsfólk á starfsstað geti sinnt þeim verkefnum sem um ræðir. Nú á einnig að vera meira eftirlit með sviðsstjórum. Þetta er afar mikilvægt því dæmi eru um að sviðsstjórar sviða annarra en skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs hafi farið offari í ráðningum og er ekki verið að tala um endurráðningar hér. Fram kemur að hópur skuli rýna nauðsyn ráðninga sem stjórnendur telja nauðsynlegar. Þetta kerfi virkar traustvekjandi en Flokkur fólksins telur að gott væri að endurskoða það að ári liðnu. Mest um vert er að takist að manna stöður svo hægt sé að halda uppi fullnægjandi lögbundinni þjónustu eins og í leikskólum og aðhlynningarstörfum og annarri mikilvægari þjónustu.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögu að breytingu á reglum um um réttindi og skyldur stjórnenda sem heyra undir borgarstjóra Reykjavíkurborgar: Í stað „2023“ í lokamálsgrein ákvæðis til bráðabirgða komi: 2024.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Halldóra Káradóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23120120

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaupsamning um sölu á eigninni Hallgerðargötu 1, íbúð 309, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Þórdís Lóa Þórhallsdóttir víkur af fundinum við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23080004

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að heimila eignaskrifstofu að hefja söluferli á eign að Blesugróf 27.

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23120015

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um húsnæði fyrir Alzheimersamtökin að Kleppsvegi 64, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23120016

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. desember 2023:

    Lagt er til að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að vinna nýtt deiliskipulag fyrir Njálsgötu 9 og Grettisgötu 10 og umhverfi þess.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23120019

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að við skipulag þessa svæðis verði hugað að því hvort eftirspurn eftir leikskólarýmum í hverfinu hafi verið mætt með öðrum leiðum.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. desember 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að gengið verði til samninga við Norrænu akademíuna um rekstur miðstöðvar fyrir skapandi greinar að Laugavegi 105.

    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23120018

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. desember 2023 á tillögu faghóps um styrki til menningarmála 2024, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Trúnaður gildir um tillöguna fram að styrkveitingu.

    Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MIR23120007

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 15. desember 2023, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. desember 2023 á rekstrarsamningum til þriggja ára við sjálfstætt starfandi aðila í menningarlífi borgarinnar, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MIR23120005

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð verði við beiðni Strætó bs., dags. 13. desember 2023, og greiði félaginu aukafjárframlag er nemur 198.989.442 kr. Framlagið færist af handbæru fé og gjaldfærist á kostnaðarstað 10500, framlag til Strætó bs.

    Samþykkt. MSS23120096

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Strætó biður um meira fjármagn til að mæta skaðabótagreiðslum og vöxtum sem fyrirtækið þarf að standa skil á. Beðið er um aukafjárframlag er nemur 198.989.442 kr. og skal það færast af handbæru fé. Niðurstaða liggur fyrir í máli Teits gegn Strætó en Strætó var dæmt til að greiða um 193.918.137 kr. í skaðabætur ásamt vöxtum til 11. september 2020 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Skipting aukafjárframlags færi eftir íbúafjölda sveitarfélaga í lok 2. ársfjórðungs 2023. Heildarupphæð sem kemur í hlut Reykjavíkur að greiða er því 351.458.794 kr. Að þurfa að greiða slíka skaðabætur bendir til þess að stjórnun Strætó bs. sé ekki til fyrirmyndar.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. desember 2023:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg stuðli að lægri verðbólgu og langtíma kjarasamningum á hófsömum nótum með því að bjóðast til að draga úr gjaldskrárhækkunum vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur þannig að þær verði ekki hærri en 3,5% árið 2024. Forsendur fyrir slíku er samflot og samstaða Reykjavíkurborgar, ríkis og annarra sveitarfélaga, verkalýðshreyfingar og aðila á vinnumarkaði um samstillta kjarasamninga sem hafi það að meginmarkmiði að stuðla að kaupmætti og vinna gegn verðbólgu.

    Samþykkt. MSS23120126

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi þess að verðbólga síðustu missera hefur að stærstu leyti verið hagnaðardrifin verðbólga og þess að aldrei hefur verið sýnt fram á að hækkanir lægstu launa drífi verðbólgu, er óviðeigandi að setja tillöguna fram á þann hátt sem hér er gert. Stjórnvöld, Reykjavíkurborg þeirra á meðal, tóku þátt í því að hækka verðlag með gjaldskrárhækkunum í stað þess að sporna við verðbólgu, rétt eins og þau fyrirtæki sem gripu tækifærið til þess að græða á aðstæðum sem sköpuðust á árinu 2021 og buðu uppá slíkt, á meðan að verka- og láglaunafólk tók á sig raunlækkun launa við síðustu samninga á almennum markaði. Hálaunahópar sem hafa haft bolmagn til að viðhalda neyslu í verðbólguástandi heyra ekki undir verkalýðinn. Réttara væri að beina orðunum skýrt til þeirra sem eiga að taka þau til sín. Sósíalistar fagna gjaldskrárlækkunum en algjörlega á forsendum þess að þær séu réttar aðgerðir í sjálfu sér og útaf fyrir sig.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að Reykjavíkurborg bjóðist til að draga úr gjaldskrárhækkunum á barnafjölskyldur þannig að þær verði ekki hærri en 3,5% árið 2024. Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt miklar gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar undanfarið og bent á að þær fara beint út í verðlagið og auka verðbólgu. Flokkur fólksins telur afar mikilvægt að komið verði á samráð ríkis, sveitarfélaga, verkalýðshreyfinga og aðila á vinnumarkaði um samstillta kjarasamninga sem hafi það að meginmarkmiði að stuðla að kaupmætti og vinna gegn verðbólgu. Gjaldskrárhækkanir vinna gegn slíkri samstöðu. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á ákveðna mótsögn í umsögn Reykjavíkurborgar um tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari tillögu til þingsályktunar og telur að þarna sé lag fyrir ríki og sveitarfélög að vinna saman og stuðla að því að bæta hag barnafjölskyldna. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að gripið verði til sértækra aðgerða og að börn tekjulágra fái gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Með þingsályktunartillögunni um gjaldfrjálsar skólamáltíðir felst ákveðið tækifæri fyrir ríki og sveitarfélög að vinna saman í því að lækka álögur á barnafjölskyldur. 

    Áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga meirihlutaflokkanna í borgarráði um mögulega lækkun á þegar samþykktum gjaldskrárhækkunum borgarinnar er óljós, óútfærð og virðist hafa þann eina tilgang að slá ryki í augu almennings. Fyrir liggur að þessir sömu flokkar hafa á skömmum tíma hækkað gjaldskrár sínar í þrígang í leik- og grunnskólum og frístundaheimilum með vísitöluhækkunum sem smyrja hjól verðbólgunnar og bitna á heimilunum í borginni. Reykjavíkurborg á að sjá sóma sinn í að taka þátt í baráttunni við verðbólguna með ríkisvaldinu, launafólki og atvinnurekendum en ekki að skila auðu líkt og gert hefur verið. Það er svo aðeins til að bíta höfuðið af skömminni að berja sér á brjóst og segjast kannski og einhvern veginn ætla að taka þátt að einhverjum óljósum skilyrðum uppfylltum við gerð kjarasamninga og bara ef að það náist „hófsamar kjarasamningshækkanir“. Fulltrúi Vinstri grænna veltir fyrir sér hvaða hófsömu kjarasamningshækkanir hugnast meirihlutanum og eins hvaða gjaldskrár verði lækkaðar á fjölskyldur barna í Reykjavík. Ekki liggja svör við því. 

    Fylgigögn

  21. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 12. desember 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2023 á breytingu á reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs vegna styrkja A-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fríða Bjarney Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23110094

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Til að bregðast við lækkun á framlögum úr þróunar- og nýsköpunarsjóði skóla- og frístundaráðs, var það mat skóla- og frístundasviðs að í þetta sinn væri rétt að einbeita sér að svokölluðum A-hluta. Styrkir úr A-hluta renna til grunnskóla, leikskóla, frístundamiðstöðva og skólahljómsveita. Þó sú ákvörðun sé skiljanleg þá leggja fulltrúar meirihlutans áherslu á að B-hlutinn, sem veitir styrki til samstarfsverkefna, gleymist ekki. Lítur meirihluti borgarráðs svo á að skynsamlegt sé að B-hluta verkefni verði styrkt við næstu úthlutun á eftir.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. desember 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg undirriti stuðningsyfirlýsingu alþjóðasamtaka leiðtoga í borgum og á sveitarstjórnarstigi, ICLEI, vegna samkomulags sem var undirritað á COP28. Leiðtogarnir sem sóttu 28. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hafa sent frá sér einróma stuðningsyfirlýsingu við samkomulagið sem fulltrúar ríkja heims undirrituðu í Dubai í lok ráðstefnunnar. ICLEI fagnar því sérstaklega að það skuli tekið fram með afdráttarlausum hætti að ríkin skuldbindi sig til að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis svo hraða megi loftlagsaðgerðum.

    Samþykkt. MSS23120119

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það skýtur skökku við að undirrita samkomulagið á meðan unnið er að aukinni útvistun á þjónustu borgarinnar sem hefur ýtt undir mikinn þungbílaakstur langa leið til borgarinnar. Sömuleiðis er enn unnið að víðtækri útvistun aksturs Strætó bs. til verktaka án nokkurra skilmála um að vagnar skuli knúnir endurnýjanlegum orkugjöfum, og án þess að efla þjónustu hans kröftuglega og stöðugt til þess að minnka þörf borgarbúa fyrir einkabílaakstur. Borgarlína er ekki komin í gagnið en aðgerðir í loftslagsmálum þola enga bið. Yfirlýsingar eru ekki aðgerðir.

    Fylgigögn

  23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. desember 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Helgu Björk Laxdal sem fulltrúa og Halldóru Káradóttur sem varafulltrúa Reykjavíkurborgar í fulltrúaráð eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands vegna kjörtímabilsins 2023-2027.

    Samþykkt. MSS23030215

    Fylgigögn

  24. Lagt fram erindi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 16. nóvember 2023, þar sem óskað er eftir staðfestingu á starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna vegna ársins 2024, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. desember 2023.

    Vísað til borgarstjórnar. MSS23110132

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hækka á árgjald til Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um 156 kr. á hvern íbúa frá í fyrra. Fram kemur að ekki var gert ráð fyrir hækkun í fjárhagsáætlun og þarf því að gera viðauka. Spurning er hvort þessi hækkun hefði ekki mátt bíða. Afar sérstakt er að upplýsingar um hækkun komi ekki fram fyrr, eða það snemma að hægt væri að gera ráð fyrir fyrir henni í fjárhagsáætlun. Sá kostnaður sem fellur á Reykjavíkurborg miðast við hlutfallsskiptingu íbúafjölda þann 1. desember 2023 og er 56,48% eða sem nemur 23.273.613 kr. fyrir árið 2024 miðað við framlagða áætlun. Fyrir árið 2023 var gjaldið 21.497.918 kr. Mismunurinn milli ára er því 1.498.821 kr. 

    Fylgigögn

  25. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stækkun fimleikahúss Fylkis, dags. 14. desember 2023, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. desember 2023.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23120091

  26. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. desember 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við bækling um uppbyggingu íbúða, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. nóvember 2023. MSS22110233

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Bæklingurinn í ár kostaði 13.887.500 kr. fyrir utan virðisaukaskatt. Kostnaður dreifðist á fyrirtækin Athygli og Ritform og afgangurinn fór í prentkostnað og dreifingu. Þetta er há upphæð að mati Flokks fólksins sem nýta hefði mátt í eitthvað mikilvægara. Líklegt er að á flestum heimilum hafi blaðið farið beint í pappírstunnuna. Minnt er á vaxandi fátækt, ójöfnuð og langa biðlista í alla þjónustu borgarinnar.

    Fylgigögn

  27. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. desember 2023, við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samning um ljósleiðarann, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. febrúar 2023. MSS23010191

    Fylgigögn

  28. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 13. desember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skólabókasöfn, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. nóvember 2023. MSS23110112



    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins spurði um framtíð skólabókasafna í Reykjavík og hvort hægt sé að ganga út frá því að þau verði áfram í þeirri mynd sem þau eru. Skemmst er að minnast örlög Borgarskjalasafns. Í svari kemur það fram sem fulltrúi Flokks fólksins óttast mest. Þar segir að í sjötta kafla laga um grunnskóla sé kveðið á um að gera eigi ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns sem skal vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það er þetta „eða“ sem fultrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af og að verið sé að skoða jafnvel að flytja skólasöfnin á einn miðlægan stað og þar með taka þau úr skólum. Það yrði afleitt vegna þess að þá tapast kosturinn sem fæst við að nýta safnið í frímínútum eða ef tímar falla niður. Um leið og skólabókasafn fer út úr skólanum er það ekki lengur skólabókasafn og nýting þess gjörbreytist. Þá eru börn ekki að skjótast inn til að lesa eða skoða bók þegar mínúta gefst inn á milli á skólatíma. 

    Fylgigögn

  29. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. desember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðkeypta ráðgjöf Reykjavíkurborgar, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. september 2023. MSS23090179

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í raun er ekkert sem kemur fulltrúa Flokks fólksins á óvart í þessu svari. Ráðgjafakaup eru um milljarður á ári og hafa hækkað óeðlilega mikið síðasta ár eða nær 40% frá fyrra ári. Hér er kannski aðeins um að ræða toppinn á ísjakanum því bókhaldslyklar gefa stjórnendum aðeins grófa mynd af rekstri skipulagseininga. Flokkun á sérfræðikostnaði er færður á lykla sem segja til um starfsgrein sérfræðingsins en ekki eðli þjónustunnar. Miðað við hvað það var erfitt að ná þessum upplýsingum fram þá ætti að leggja áherslu á að bókhald borgarinnar sé þannig fært að það eigi að vera auðvelt að keyra þessar upplýsingar út. Bókhald er fært til þess að rekstur fyrirtækis/stofnunar/félags sé gegnsær og allar upplýsingar sem hann varðar séu aðgengilegar. Með bókhaldsfyrirkomulagi eins og þessu er auðvelt að fela bruðl og sóun. Fæstir furða sig kannski lengur á sóun og bruðli í Braggamálinu þegar þeir vita hvernig bókhaldskerfið er í reynd. Hér kemur einnig skýring á því hvað Flokkur fólksins hefur fengið mikið af óljósum svörum þegar spurt er um fjármál og eyðslu. Það virðist í raun vera hægt að segja manni hvað sem er þegar svo loðið og óskýrt bókhaldskerfi liggur að baki. 

    Fylgigögn

  30. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. desember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gjaldtöku í Vetrargarðinum sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. október 2023. MSS23100161

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvort stefnt sé að gjaldtöku í fyrirhugaðan Vetrargarð í Jafnaseli. Í svari kemur það fram að rukka á fyrir inngöngu í hann þar sem fjárfesting er umtalsverð. Hversu mikið og hverjir borga og hverjir fá afslátt eða frítt liggur þó ekki fyrir. Þetta er hið versta mál að mati fulltrúa Flokks fólksins. Reynsla af gjaldtöku þar sem börn eiga í hlut er ekki góð eins og sést hefur víða í sambærilegum aðstæðum. Gjaldtaka mun útiloka börn efnalítilla foreldra frá því að heimsækja Vetrargarðinn. Gjaldtaka mun þannig stuðla að aðskilnaði barna í hverfinu, þ.e. þau sem geta heimsótt Vetrargarðinn og þau sem geta það ekki. Utanumhald á slíku fyrirkomulagi sem gjaldtaka er er auk þess kostnaðarsöm og því ekki eins og gjaldið renni óskert til rekstraraðila. Sagt er að garðurinn verði aðgengilegur fyrir alla en með því að taka gjald þá segir það sig sjálf að svo verður einfaldlega ekki.

    Fylgigögn

  31. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. desember 2023, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. nóvember 2023. FAS23010019

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fjárfestingaráætlun fyrir árið 2024 var skrifuð áður en fjárfestingaráætlun borgarinnar lá fyrir. Þetta þótti fulltrúa Flokks fólksins ekki aðeins sérkennilegt heldur afar óeðlilegt. Það hlýtur að eiga að byggja upplýsingar, hvort heldur til kjörinna fulltrúa eða annarra, á réttum forsendum. Nokkrar breytingar voru gerðar þegar farið var að styðjast við rétt gögn m.a. á töflu yfir starfsmannafjölda. Það kom illa við fulltrúa Flokks fólksins að sviðið skyldi í raun ljúka greinargerð byggða á úreltum forsendum og birta hana eins og fátt væri eðlilegra. Þetta svið hefur verið gagnrýnt mikið vegna fjárfestingar og meðhöndlun fjármagns í hinni stafrænu vegferð borgarinnar. Upphaflega var það aðeins Flokkur fólksins sem sá sig knúinn til að vera með alvarlegar athugasemdir en fleiri hafa bæst í þann hóp, bæði einkafyrirtæki og aðrir flokkar í minnihluta. Dropinn holar steinninn. Fyrir liggja tillögur þriggja flokka um þessar mundir um að ýmist breyta skipulagi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, hagræða meira og sýna aðhald eins og með því að draga úr yfirbyggingu. Einnig var lögð fram tillaga fyrir skemmstu af minnihlutaflokki að leggja skuli niður stafrænt ráð sem ekki er séð að geri nokkuð nema kvitta undir hástemmdar kynningar.

    Fylgigögn

  32. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. desember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ársreikning Reykjavíkurborgar árið 2019 og sölu byggingarréttar, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar 2021. FAS23030003

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins er orðlaus yfir að þetta svar við fyrirspurn Miðflokksins um ársreikning Reykjavíkurborgar 2019 sé að koma fram núna um fjórum árum eftir að fyrirspurnin var lögð fram. Hvernig má þetta vera? Halda mætti að stjórnsýslan sé í molum. Reyndar eru því miður allmörg dæmi um þetta og er það með öllu óásættanlegt þegar meðaltími svara við fyrirspurnum er um 2-3 vikur. Miðflokkurinn getur ekki brugðist við svarinu þar sem hann er ekki í borgarstjórn lengur. Finnst meirihlutanum þetta boðlegt?

    Fylgigögn

  33. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 14. desember 2023. MSS23010022

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 14. desember 2023. MSS23010012

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

    Heilbrigðisnefndin vísar tillögu Flokks fólksins um hljóðmælingar frá með þeim rökum að hljóðmælingar séu gerðar ár hvert. Engu að síður vill heilbrigðisnefndin leita upplýsinga hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins telur að bíða ætti eftir umbeðnum upplýsingum áður en ákveðið er að vísa tillögunni frá. Flokkur fólksins lagði fram þessa tillögu vegna hávaðakvartana í tengslum við skautasvellið á Ingólfstorgi. Það er til lítils að setja upp hljóðmæla ef eftirlit og eftirfylgni eru látin liggja á milli hluta. Tónlistarstyrkur svellsins hefur hækkað nú þegar nær dregur jólum. Nágrannar segja að símamæling sýni ítrekað 90dB, sem er langt yfir löglegum styrk (55dB) og brýtur lögreglusamþykkt og reglugerð um hávaða. Þau sem stjórna svellinu þurfa að fá skýr skilaboð frá Nova, Heilbrigðiseftirlitinu og starfsfólki Reykjavíkur um hvaða lög og reglur gilda, og gæta þess að halda styrk og bassa tónlistarkeyrslunnar í algjöru lágmarki. Hér er um lýðheilsumál íbúanna að ræða, sem þurfa að þola hávaðann í 10 til 12 stundir daglega í mánuð. Fleiru er mótmælt sem þykir óbærilegt og það eru t.d. útitónleikar eða aðrir hávaðasamir viðburðir við svellið. Það er ekki innifalið í rekstrarleyfi Nova við Ingólfssvell, og brýtur í bága við lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar. 

    Fylgigögn

  35. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 14. desember 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  36. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 14. desember 2023. MSS23010032

    Fylgigögn

  37. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 13. desember 2023. MSS23010035

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Umræða um íbúakort hefur verið nokkuð hávær á árinu. Nú þegar reynsla er komin á þau er mikilvægt að hlusta vel á athugasemdir og ábendingar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að gengið hafi verið of langt í gjaldskyldu á miðsvæði borgarinnar. Bílastæðahús standa síðan oft auð. Hér er greinilega ekki allt með felldu. Bílastæðahúsin eru illa auglýst, lítt aðgengileg, mörgum þykir greiðslukerfið flókið og almennt eru þau ekki aðlaðandi. Ef hugsunin er að koma bílum af götum ætti meirihlutinn að leggja allt kapp á að hvetja til þess að bílastæðahús verði gerð eftirsóknaverður kostur til að geyma bíl sinn. Fulltrúi Flokks fólksins styður hugmyndir eins og að leyfa íbúum að leggja innan fleiri en eins svæðis og að hægt væri að kaupa skammtímaíbúakort fyrir þá sem koma oft en eru ekki íbúar. Nokkuð hefur borið á erfiðleikum þegar íbúar fá iðnaðarmenn til vinnu. Þessir aðilar þurfa nauðsynlega að vera á bíl og þurfa ítrekað að greiða bílastæðagjöld vegna óhjákvæmilegrar vinnu eins og segir í bókun ráðsins.

    Fylgigögn

  38. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 12. desember 2023. MSS23010027

    Fylgigögn

  39. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 11. desember 2023. MSS23010033

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun íbúaráðs Laugardals. Ástandi skólahúsnæða er alvarlega ábótavant og þrengt er að allri starfsemi flestra skóla. Nemendafjöldi hefur verið langt umfram það sem áætlað var og borgaryfirvöld hafa ekki brugðist nægjanlega markvisst við því. Fram kemur í bókun ráðsins að rakaskemmdir plagi húsnæði skólanna og er húsnæði þeirra heilsuspillandi fyrir nemendur og starfsmenn. Sama gildir um suma leikskóla hverfisins. Enn er beðið skýrslu starfshóps borgarinnar um undirbúning framkvæmda vegna skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi sem skila átti fyrir 1. júní þessa árs. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið svar við fyrirspurn sinni um skýrsluna en borið er við töfum þar sem verkefnið var umfangsmeira en búist var við.  Í svari segir ennfremur að þegar forsendur sem samþykktar voru í borgarráði hefur verið mætt verður skýrslan lögð fyrir borgarráð. Fulltrúi Flokks fólksins veit ekki um hvaða forsendur verið er að tala og hefur lagt inn framhaldsfyrirspurn um þetta atriði sérstaklega. Brýnt er að þessi skýrsla verði opinber sem fyrst, hennar er beðið með óþreyju. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að íbúaráðið kalli eftir fundi með fulltrúum eignasviðs borgarinnar, skóla- og frístundasviði og starfshópnum þar sem ítarlega verður fjallað um lausnir, forgangsröðun og tímalínu nauðsynlegra umbóta. Vonandi kemur eitthvað út úr þeim fundi.

    Fylgigögn

  40. Lagðar fram fundargerðir samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 20. og 27. september, 13. október, 28. nóvember og 13. desember 2023. MSS23010019

    Fylgigögn

  41. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 22. og 27. nóvember 2023. MSS23010018

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um rýrar fundargerðir Orkuveitu Reykjavíkur. Úr því hefur ekki verið bætt að heitið geti. Orkuveita Reykjavíkur er dótturfélag Reykjavíkurborgar og er mikilvægt að upplýsa borgarfulltrúa vandlega um hvað fram fer í fyrirtækinu. Fundargerðir eru ein leið til þess. Í þessar fundargerðir vantar allt innihald. Fundargerðir eiga ekki að vera einhver sýndarmennska.

    Fylgigögn

  42. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. MSS23120009

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari þingsályktunartillögu um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra. Sú umsögn sem hér er lögð fram er hins vegar hvorki fugl né fiskur. Reykjavíkurborg er ekki þátttakandi í að sporna við verðbólgu. Reykjavíkurborg hefur hækkað gjaldskrár eins og enginn sé morgundagurinn vitandi að hækkanir fara beint út í verðlagið og auka verðbólgu eða eru alla vega ekki til þess fallnar að draga úr henni. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að gripið verði til sértækra aðgerða og að börn tekjulágra foreldra fái gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Það þarf að forgangsraða í þágu viðkvæmra hópa. Frumkvæði um fríar skólamáltíðir fyrir börn þeirra verst settu kom frá Flokki fólksins fyrir alllöngu síðan og hefur flokkurinn ítrekað haldið þeirri tillögu á lofti. Þá er ekki aðeins verið að ræða um börn foreldra sem eru á fjárhagsaðstoð. Börn búa við afar misjöfn kjör í Reykjavík. Flokki fólksins finnst það heldur ekki eiga við að blanda saman umræðunni um gjaldfrjálsan mat við umræðuna um „hollan mat“. Auðvitað á öllum börnum ávallt að vera boðið upp á hollan mat í skólum. Annað er ekki hægt að samþykkja.

    Fylgigögn

  43. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23120010

    Fylgigögn

  44. Lögð fram starfsskýrsla endurskoðunarnefndar, ódags., vegna starfsársins ágúst 2022 til júlí 2023.

    Sunna Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. IER23100036

    Fylgigögn

  45. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að athuga hvort unnt sé að breyta nýtingu lóðarinnar Úlfarsbraut 122-126 með það að markmiði að unnt verði að reisa þar veitingaaðstöðu. Við Úlfarsbraut 122-126 má finna grunnskóla, leikskóla, íþróttahús, sundlaug, menningarhús með bókasafni og frístundaheimili. Þessi reitur er því miðstöð þjónustu í hverfinu og í mikilli notkun af íbúum hverfisins. Ólíkt mörgum öðrum sambærilegum reitum í Reykjavík er hvorki sérstök veitingasala eins og kaffihús eða samskonar veisluaðstaða á reitnum né í grenndinni. Vænta má miðað við aðsóknina að svæðinu að það sé rekstrargrundvöllur fyrir snotru kaffihúsi en nokkur eftirspurn hefur verið eftir slíku meðal íbúa hverfisins. Þá sérstaklega í ljósi þess að alla verslunarþjónustu er einungis að sækja efst í hverfinu. Ef fagleg athugun umhverfis- og skipulagssviðs leiðir í ljós að þetta er mögulegt verði unnin tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem getur stutt við það að auka fjölbreytni í hverfinu. MSS23120154

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.

    Fylgigögn

  46. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um ástæður kaupa Reykjavíkurborgar á utanaðkomandi ráðgjöf sbr. svar við fyrirspurn fulltrúans sem lagt var fram á fundi borgarráðs 21. desember 23 en þar kemur fram að á þessu ári höfðu kaup á ráðgjöf af ýmsu tagi aukist um nær 40% frá fyrra ári. Einnig er óskað upplýsinga um það hvernig stjórnun á slíkum verkkaupum er háttað, hvort og/eða hvaða eftirlit er með slíkum verkkaupum. Er til staðar fjárhagsþak eða geta sviðin ákveðið ein og sér hversu miklu þau veita af sínum rekstrarfjármagni í ráðgjafakaup? Getur verið að um sé að ræða toppinn á ísjakanum í ljósi þess að bókhaldslyklar gefa stjórnendum aðeins grófa mynd af rekstri skipulagseininga? Flokkun á sérfræðikostnaði er færður á lykla sem segja til um starfsgrein sérfræðingsins en ekki eðli þjónustunnar. Miðað við hvað það var erfitt að ná þessum upplýsingum fram þá ætti að leggja áherslu á að bókhald borgarinnar sé þannig fært að það eigi að vera mjög auðvelt að keyra þessar upplýsingar út. Enda er bókhald fært til þess að rekstur fyrirtækis/stofnunar/félags sé gegnsær og allar upplýsingar sem hann varðar séu aðgengilegar. MSS23120148

  47. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um kærumál sem Strætó bs. hefur átt aðild að hefur átt aðild síðustu fimm ár og sundurliðun og/eða umfjöllun um efni þeirra og niðurstöður af hvaða toga sem er, kærunefnd útboðsmála o.fl. Einnig er óskað upplýsinga um dómsmál sem hafa varðað fyrirtækið síðustu fimm ár hvort heldur frá einstaklingum eða öðrum fyrirtækjum. MSS23120149

    Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

  48. Borgarráð og áheyrnarfulltrúar leggja fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að borgarráð samþykki að flagga hvítum friðarfána í þágu mannúðar við Ráðhús Reykjavíkur til stuðnings við þá skýlausu kröfu að almennum borgurum sé hlíft við stríðsátökum í þágu mannúðar. Friðardúfan er táknræn fyrir frið, samhug, samstöðu og mannúð. Leitað var til Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands um ráðgjöf og mælti hún með fána með friðardúfu. Lagt er til að friðarfáninn verði dreginn að húni við Ráðhús Reykjavíkur á Þorláksmessu og standi í mánuð. MSS23120033

    Samþykkt.

    -    Kl. 11:54 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. 

Fundi slitið kl. 11:57

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 21.12.2023 - prentvæn útgáfa