Arndís, Lóa Hlín og Baldvin Ottó hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar
Menning og listir
Arndís Þórarinsdóttir, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Baldvin Ottó Guðjónsson hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2023 fyrir bækurnar Kollhnís, Héragerði: ævintýri um súkkulaði & kátínu og Einu sinni var mörgæs.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur nú síðdegis, á síðasta vetrardegi. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni; flokki bóka frumsaminna á íslensku, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Þetta eru elstu barnabókaverðlaun landsins en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 krónur í hverjum flokki.
Í ár fékk dómnefndin rúmlega 80 bækur til skoðunar. Fimm voru tilnefndar í hverjum flokkanna þriggja og nú liggur fyrir hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Sunna Dís Jensdóttir, formaður, Ragnheiður Gestsdóttir og Arngrímur Vídalín.
Arndís Þórarinsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki frumsamins efnis fyrir bókina Kollhnís í útgáfu Máls og menningar.
Baldvin Ottó Guðjónsson hlýtur verðlaun í flokki þýðinga fyrir þýðingu sína á bókinni Einu sinni var mörgæs eftir Magda Brol í útgáfu Kvists bókaútgáfu.
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki myndlýsinga fyrir bókina Héragerði: ævintýri um súkkulaði & kátínu í útgáfu Sölku.
Við óskum verðlaunahöfunum hjartanlega til hamingju!
Umsagnir dómnefndar:
Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur. Útgefandi: Mál og menning.
Af eftirtektarverðri næmni, mannskilningi og ritfærni fjallar Arndís Þórarinsdóttir í bók sinni Kollhnís um brostnar vonir og væntingar, snúin fjölskyldutengsl, bróðurást og einhverfu. Bókin er í senn fyndin og falleg, hjartanístandi og raunsönn. Hún heldur lesanda frá upphafi og ætti að höfða til breiðs aldurshóps lesenda.
Héragerði: ævintýri um súkkulaði & kátínu eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Útgefandi: Salka.
Myndhöfundareinkenni Lóu Hlínar eru mjög greinileg í bókinni Héragerði, en um leið er líka auðséð að bókin er ætluð eldri lesendum en hefðbundnar myndabækur. Ekki bara vegna þess að textinn er lengri og þyngri (ef hægt er að nota það orð um svo sprellfjörugan texta), heldur eru sjónrænir þættir eins og litur á síðum og letri markvisst notaðir til að styrkja upplifunina og auðga lesturinn. Mikilvægt er að lesendur fái að upplifa að bók getur verið bæði fallegur og spennandi hlutur í sjálfu sér, jafnvel boðið upp á óvænta upplifun eins og litla bók í leynivasa! Það er skemmtilegt – og ákaflega mikilvægt – að nú skuli sífellt fjölga myndlýstum bókum fyrir lesendur sem komnir eru yfir hefðbundinn myndabókaaldur og gott að sjá myndræna útfærslu sem höfðar til þeirra notaða af svo mikilli leikni - og svo mikilli gleði.
Einu sinni var mörgæs eftir Magda Brol í þýðingu Baldvins Ottó Guðjónssonar. Útgefandi: Kvistur bókaútgáfa.
Í Einu sinni var mörgæs nær Magda Brol að fanga þá staðreynd að skáldskapurinn flytur fjöll – og jafnvel mörgæsir líka. Lesendum er boðið í ævintýraför með Magna Mörgæs sem einn daginn rekst á stóran, rauðan, blaktandi-flaktandi hlut sem reynist vera bók. Fjör, fyndni og forvitni ráða för í verkinu og vinnur Baldvin Ottó Guðjónsson þýðinguna skemmtilega af hendi og tekst vel að koma til skila vandræðagangi og fróðleiksfýsn mörgæsanna. Boðskapur textans er slíkur að hann vekur upp hlýju í hjarta bókaunnenda þvert á aldur.
Aðrar tilnefndar bækur
Eftirtaldar bækur voru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2023 auk verðlaunabókanna:
Myndlýsingar
Frankensleikir: eða hinn nýi Aurgelmir: jólasaga eftir Eirík Örn Norðdahl og Elías Rúna. Útgefandi: Mál og menning.
Leitin að Lúru eftir Margréti Tryggvadóttur og Önnu Cynthiu Leplar. Útgefandi: Mál og menning.
Eldgos eftir Rán Flygenring. Útgefandi: Angústúra.
Mamma kaka eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Útgefandi: Salka.
Þýddar bækur.
Brandur flytur út eftir Sven Nordqvist í þýðingu Ástu Halldóru Ólafsdóttur. Útgefandi: Kvistur bókaútgáfa.
Ósýnilegur gestur í Múmíndal eftir Cecilia Davidsson og Filippa Widlund, endursögn á Sögunni um ósýnilega barnið eftir Tove Jansson. Þýðandi: Gerður Kristný. Útgefandi: Mál og menning.
Uppskrift að klikkun: Hjartasósa, hafgúuheilar og gvakamóri við leiðindum eftir Dita Zipfel og Rán Flygenring í þýðingu Jón St. Kristjánssonar. Útgefandi: Angústúra.
Maía og vinir hennar eftir Larysa Denysenko og Masha Foya í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur úr enskri þýðingu Burshtyna Tereshchenko.
Bækur frumsamdar á íslensku
Ófreskjan í mýrinni eftir Sigrúnu Eldjárn. Útgefandi: Mál og menning.
Frankensleikir: eða hinn nýi Aurgelmir: jólasaga eftir Eirík Örn Norðdahl og Elías Rúna. Útgefandi: Mál og menning.
Héragerði: ævintýri um súkkulaði & kátínu eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Útgefandi: Salka.
Allt er svart í myrkrinu eftir Elísabet Thoroddsen. Útgefandi: Bókabeitan.
Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum líkt og öðrum bókmenntaverðlaunum Reykjavíkurborgar.