Áhrif leiðtogafundar Evrópuráðsins á daglegt líf á höfuðborgarsvæðinu
Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Reykjavík dagana 16. og 17. maí 2023. Búast má við að fundurinn muni hafa nokkur áhrif á daglegt líf íbúa á höfuðborgarsvæðinu þessa daga. Upplýsingafundur fyrir íbúa og rekstraraðila verður haldinn miðvikudaginn 10. maí klukkan 17:00 í Kolaportinu.
Forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands eru gestgjafar fundarins en auk aðildarríkja Evrópuráðsins er fulltrúum ESB, Sameinuðu þjóðanna og ÖSE ásamt fleirum boðið að ávarpa fundinn. Þetta er í fjórða sinn í 74 ára sögu stofnunarinnar sem leiðtogar aðildarríkja koma saman undir merkjum ráðsins.
Lokanir í miðborginni
Gangandi og hjólandi vegfarendur geta farið allra sinna ferða í Kvosinni og nágrenni þrátt fyrir að svæðið loki fyrir umferð bíla og rafhlaupahjóla frá mánudagskvöldinu 15. maí klukkan 23:00.
Þjónusta á lokunarsvæðinu
Reykjavíkurborg mun áfram sinna þjónustu við íbúa sem búa á lokunarsvæðinu og íbúar sem nýta ferðaþjónustu fatlaðra munu eftir sem áður geta nýtt sér þjónustuna. Nánari upplýsingar á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.
Fundur þjóðarleiðtoganna verður haldinn í Hörpu. Af öryggisástæðum verða götur og svæðið í nálægð við Hörpu lokaðar fyrir allri umferð þar með talið gangandi umferð á meðan á fundinum stendur. Sjá dökkbleika svæðið á kortinu.
Þá má gera ráð fyrir umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda í lögreglufylgd til og frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli á þessum dögum. Áhrifin verða hvað mest síðdegis á þriðjudeginum og miðvikudeginum.
Upplýsingafundur
Á morgun miðvikudaginn 10. maí verður haldinn upplýsingafundur fyrir íbúa og rekstraraðila í miðborginni vegna leiðtogafundarins. Fundurinn verður í Kolaportinu og hefst klukkan 17:00. Þar verða fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra og Reykjavíkurborg.
Allar nánari upplýsingar má nálgast á íslensku, ensku og pólsku á vef utanríkisráðuneytisins: Spurt og svarað um götulokanir vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins.