Afhentu ráðherra Farsældarsáttmála

Ráðherra afhentur Farsældarsáttmáli

Ásmundi Einari Daðasyni barnamálaráðherra var formlega afhent fyrsta eintakið af Farsældarsáttmála Heimilis og skóla í Rimaskóla í síðustu viku. Þóranna Rósa Ólafsdóttir skólastjóri Rimaskóla bauð Ásmund Einar og Þorvar Hafsteinsson formann Heimilis og skóla og þeirra starfslið sérstaklega velkomna og nemendur í 9.bekk hófu dagskrána með því að syngja lagið Ferðalok eða eins og Íslendingar þekkja best „Ég er kominn heim“.

Foreldrar lykilfólk til að tryggja farsæld barna

Þorvar frá Heimili og skóla fór yfir verkfærið sem Farsældarsáttmálinn er og hvernig hann gefi foreldrum tækifæri til þess að móta samstarf þeirra á milli, styrkja foreldrastarfið og efla hlutverk foreldra sem lykilaðila í að skapa farsælt samfélag fyrir börnin okkar. Rannsóknir hafa sýnt fram á forvarnargildi samstíga foreldrahóps því foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í að styðja við og stuðla að góðri menningu barnanna okkar.

Miklu skiptir að foreldrar hafi tengsl við aðra foreldra

Það að foreldrar séu með breitt tengslanet, geti hringt í hvert annað og leyst málin áður en í óefni fer styrkir foreldra í aðgerðum gegn einelti, fordómum og eykur skilning og umburðarlyndi milli fjölbreyttra hópa.  Að baki Farsældarsáttmálans liggur mikil vinna og víðtækt samtal við foreldra, skólastjórnendur, sveitarfélög, ungliðahreyfingu, íþróttahreyfingu og ráðuneyti. Allir þessir aðilar geta saman stuðlað að bættri vellíðan og farsæld allra barna!

Ásmundur Einar talaði til nemendanna sem voru í salnum og tók undir mikilvægi þess að samfélagið gangi saman í takt til að tryggja velferð barna. Hann tók svo við Farsældarsáttmálanum sem var búið að ramma inn. Hann ætlaði með hann í ráðuneytið og breiða út fagnaðarboðskapinn sem í sáttmálanum felst.