Aðlögun hafin í nýjum leikskóla við Hallgerðargötu

Skóli og frístund

Leikskólinn Hallgerðargötu opnar

Fimm börn hófu aðlögun í nýja ungbarnaleikskólanum við Hallgerðargötu á mánudaginn og fleiri munu bætast í hópinn í þessari viku og þeirri næstu. Ingibjörg Hauksdóttir, leikskólakennari og myndlistarkona, sem ætlaði að snúa sér alfarið að myndlistinni ákvað að láta slag standa því henni þótti spennandi að taka þátt í byggja upp nýja leikskóla

Bjartsýn á að fá fleira starfsfólk fljótlega

Aðlögun fleiri barna heldur svo áfram eftir því sem fleira starfsfólk ræður sig til starfa og segist Anna Blöndal leikskólastjóri vera bjartsýn á að úr rætist þó enn séu ófylltar stöður. Ingibjörg tekur í svipaðan streng: „Ég vil óska eftir fleiru skemmtilegu starfsfólki. Þetta er æðislegt umhverfi sem fékk mig til að segja já.“

Segja börnin tilbúin að byrja á leikskóla

Elstu börnin sem voru að hefja aðlögun er tveggja ára eða verða það á næstu mánuðum.  Foreldrarnir sögðu aðlögunina ganga vel en næsta skref felst í því að þau fari frá í stuttan tíma. Þau töldu að þá myndi reyna meira á en mögulega yrði þetta erfiðara fyrir foreldrana en börnin. „Við hjónin vorum einmitt að tala um þetta í gær að raunverulega væri jákvætt að hann væri að byrja núna því við getum orðið talað við hann og hann skilur,“ segir Páll Stefánsson pabbi Kára tveggja ára. Þeir feðgar hafa haft það fyrir venju að fara í sund alla morgna þar sem þeir eiga saman gæðastund. „Ég vil ekki hætta þeirri rútínu því það gefur honum og mér svo mikið, þannig að nú ætlum við að fara eftir leikskóla.“

Smíða dagskrána í kringum dagvistunarstað og tíma

Sigurður Ingi Einarsson var glaður með að sonur hans Heiðar Högni væri kominn með pláss þó ekki hafi verið á sama leikskóla og eldri systir hans. Faðir Freyju, Gunnlaugur Jónasson, bætir við: „Maður er ekki í stöðu til að velja og hafna, heldur þarf maður bara að smíða dagskrána í kringum þetta.“ Báðir segjast þeir þó nokkuð ánægðir með fyrirkomulagið hér á landi og hafa notið samvista með börnunum. Þeir nefna Bretland og Bandaríkin í því samhengi, þar sem fæðingarorlofið er mun styttra og börnin oft aðeins nokkurra vikna þegar þau fara í dagvist.

Fluttar heim og ánægðar með ákvörðunina

Anna Guðrún, dóttir Hörpu Daggar Fríðudóttur, var reynsluboltinn í hópnum. Þær voru tiltölulega nýfluttar frá Danmörku þar sem Anna Guðrún hóf sína leikskólagöngu tíu mánaða gömul á svokallaðri vöggustofu. Harpa Dögg segir það hafa gengið mjög vel enda hafi hún farið á sömu deild og eldri systir hennar hafði verið. Þó að lífið hafi verið gott úti segir Harpa að Ísland og það að vera í návígi við fjölskyldu og vini hafi togað þau aftur heim til Íslands. Hér sé líka auðveldara að kíkja í heimsókn og gera eitthvað með vinum og fjölskyldu með litlum fyrirvara sem þeim þyki gott.