Alls verður bætt aðgengi á um 20 strætóbiðstöðvum í ár. Ákvörðun um hvaða biðstöðvar verða endurnýjaðar er tekin út frá úttekt á ástandi og aðgengi sem gerð var sumarið 2020. Einnig er forgangsraðað eftir fjölda farþega sem fara um hverja biðstöð. Áhersla er lögð á aðgengi fyrir alla í framkvæmdunum.
Hvað verður gert?
- Hækkaður kantsteinn í rétta hæð á biðstöðvum Strætó til að farþegar geti stigið beint af gangstétt inn og út úr vögnunum.
- Gerð leiðarlína og viðvörunarlína fyrir blinda og sjónskerta.
- Bætt aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda með bættum tengingum við stíga og gangstéttir.
Borgarráð samþykkti þetta á fundi sínum fyrr í mánuðinum. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í júlí og þeim ljúki í desember. Kostnaðaráætlun er 150 milljónir króna.