Opnað hefur verið fyrir umsóknir í viðburðapott Barnamenningarhátíðar 2023. Hátíðin fer fram dagana 18.- 23. apríl og að þessu sinni verður lögð sérstök áhersla á viðburði í Grafarvogi og viðburði sem tengjast friði.
Barnamenningarhátíð í Reykjavík er haldin í apríl ár hvert. Hún er ein af borgarhátíðum Reykjavíkurborgar og er hún orðin lykilþáttur í starfi með börnum í grunnskólum borgarinnar. Leiðarljós hátíðarinnar eru gæði, margbreytileiki, jafnræði og gott aðgengi að menningu barna, með börnum og fyrir börn. Vettvangur hátíðarinnar er borgin öll og fara fjölbreyttir viðburðir fram í grunnskólum, leikskólum, frístundamiðstöðvum og listaskólum. Jafnframt er boðið upp á dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur, Hörpu og lista- og menningarstofnunum borgarinnar.
Barnamenningarhátíð í Reykjavík er ein af meginþátttökuhátíðum borgarinnar og rúmar hún allar listgreinar. Er hún sterkt innlegg í menningaruppeldi barna og eykur hátíðin á sýnileika barnamenningar í borgarumhverfinu. Börn og fjölskyldur geta notið dagskrár hátíðarinnar óháð félagslegri stöðu því frítt er inn á alla viðburði.