Aldrei hafa komið eins margir flóttamenn til Íslands og í ár og þó er aprílmánuði rétt að ljúka. Í húsnæði Domus Medica hefur verið komið upp móttökumiðstöð fyrir flóttafólk og allra leiða er leitað til að útvega fólkinu húsnæði. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Gylfa Þórs Þorsteinssonar, aðgerðastjóra yfir móttöku flóttamanna frá Úkraínu, í velferðarkaffi í morgun, en það er opinn fundur velferðarráðs.
Í velferðarkaffi var að þessu sinni fjallað um komu flóttafólks frá Úkraínu til Íslands. Farið var yfir aðgerðir sem hið opinbera hefur gripið til vegna stöðunnar sem upp er komin og um hvaða hlutverki Reykjavíkurborg gegnir, sem dvalarstaður langflestra sem til landsins koma.
Gylfi Þór fjallaði um starf aðgerðateymis vegna komu einstaklinga á flótta en um 1350 flóttamenn hafa komið til landsins það sem af er ári, þar af 870 frá Úkraínu. Með aðstoð úr ýmsum áttum hefur verið útvegað húsnæði fyrir um tvö þúsund manns, sem áætlað er að dugi í um sex vikur til viðbótar. Meðal möguleika sem hafa verið skoðaðir er opnun flóttamannabúða; það er hvar og hvernig slíkt væri mögulegt. „Við ætlum alltaf að taka á móti fólkinu eins vel og frekast er unnt, en þurfum að vera búin undir að mögulega þurfi að opna flóttamannabúðir og ég er ófeiminn við það orð,“ sagði Gylfi.
Huga þarf að öllum hópum flóttamanna
Gylfi sagði fólkinu útvegað skjól víða um land. Sums staðar vildu sveitarfélögin gjarnan taka á móti fólki og störf væru í boði, en húsnæði vantaði. Því væru til skoðunar möguleikar eins og að byggja viðlagahús, eins og gert var í Vestmannaeyjagosinu. Hann ræddi þó ekki bara þörfina fyrir húsnæði heldur einnig sálfræðiaðstoð og aðra þjónustu sem þarf að vera til staðar fyrir hópinn. Þá minnti hann á nauðsyn þess að huga að öllum hópum flóttamanna, ekki aðeins fólki frá Úkraínu. Hann sagði marga hafa boðið fram aðstoð og þannig hefði margt áunnist en kom þó inn á hjálparboð sem ekki væru viðeigandi; til að mynda boð fólks um að hýsa flóttafólk gegn vinnuframlagi. „Það er mansal, en fólk áttar sig ekki á því,“ sagði Gylfi.
Yngsta fylgdarlausa barnið aðeins 14 ára
Í móttökumiðstöð í húsnæði Domus Medica er tekið á móti flóttafólki um leið og það kemur til landsins. Þar fer það meðal annars í læknisskoðun og hittir óeinkennisklædda lögregluþjóna og fulltrúa Fjölmenningarseturs, Vinnumálastofnunar, Sjúkratrygginga og fleiri. „Þarna kemur fólk og fær svörin, öll á einum stað,“ sagði Gylfi og kvað úrræðið hafa nýst vel þótt auðvitað væri alltaf hægt að læra meira og gera enn betur.
13 fylgdarlaus börn hafa komið til landsins frá Úkraínu. Tíu þeirra komu með nánum ættingjum sem hægt var að sannreyna en þrjú voru á eigin vegum og er það yngsta þeirra 14 ára. „Við getum ekki ímyndað okkur hvað þetta fólk hefur þurft að ganga í gegnum. Það er skelfilegt og við þurfum að taka utan um það, umvefja það, styðja og hjálpa,“ sagði Gylfi og kom inn á að hjálpa þyrfti fólki að fá að nýta sína menntun og reynslu hér á landi. Hann talaði sérstaklega um börnin, sem væru viðkvæmasti hópurinn. „Það þarf að kenna þeim lífsleikni og leiða þau inn í samfélagið, hægt og rólega.“
„Flóttamannavandinn hefur vaxið en við höfum ekki vaxið með honum og það þarf að hugsa hlutina lengra,“ sagði hann. „Vandamál eru mál sem þarf að vanda sig við, þau eru ekki vesen.“
Mikilvægt að halda vel utan um hópinn
Jasmina Vajzovic Crnac, leiðtogi alþjóðateymis velferðarsviðs, ræddi um aðgerðir Reykjavíkurborgar og lærdóminn til framtíðar. Hún sagði meðal annars frá hlutverki alþjóðateymisins og hvernig brugðist hefði verið við hraðri fjölgun verkefna með aðstoð starfsfólks víða að úr borgarkerfinu. Jasmina kom sjálf til landsins sem flóttamaður 16 ára gömul, eftir fjögur ár á flótta. Hún talaði um mikilvægi þess að halda vel utan um hópinn, áföllin sem fólkið hefði lent í ættu eftir að koma fram síðar. Þá sagði hún frá hlutverki fjölskyldumiðstöðvar, sem opnuð var í gær, en þar verður leikskóli og skóli fyrir úkraínska flóttafólkið. Hún sagði mikilvægt að gæta þess að ekki kæmi upp togstreita milli mismunandi flóttamannahópa og sagði loks Ísland eftirsótt hjá flóttafólki, af því að hér væri vel staðið að málum.
Í síðustu framsögu dagsins fjallaði Nicole Leigh Mosty, forstöðumaður Fjölmenningarseturs, meðal annars um hlutverk setursins, hvernig það tengdi aðila báðum megin borðsins svo vel væri tekið á móti fólki og það nýtti sín réttindi.
Fundurinn var sendur út í beinu streymi og hægt er að hlusta á erindi allra sem fram komu á Facebook-síðu velferðarsviðs.