Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í efnahags- og fjármálaráðuneytinu og Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslunnar undirrituðu í dag samning um 30 þúsund fermetra lóð fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila, svokallaða Björgunarmiðstöð, milli Kleppssvæðisins og Holtagarða. Í staðinn fær borgin lóð, áþekka að stærð, við Borgarspítala í Fossvogi.
Undirritun samnings um Björgunarmiðstöð – Mikilvæg tímamót
Sameiginlegt húsnæði fyrir lögreglu og viðbragðsaðila
Á vegum ríkisins hefur frá júní 2020 verið unnið að undirbúningi byggingar sameiginlegrar aðstöðu fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, einkum fyrir embætti ríkislögreglustjóra, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslu Íslands, Tollgæsluna, Neyðarlínuna, Slysavarnafélagið Landsbjörgu og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að þörf sameiginlegs húsnæðis fyrir starfsemina sé um 26 þúsund fermetrar. Áformað er að koma þessari almannaþjónustustarfsemi fyrir í nýbyggingu á lóðinni milli Kleppssvæðisins og Holtagarða.
Mikil tímamót
Við undirritunina í dag komu fulltrúar allra viðbragðsaðila á staðinn ásamt farartækjum. Að lokinni undirrituninni var fagnað með lófaklappi enda mikilvægum áfanga náð.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði þetta mikil tímamót, því nú væru allir viðbragðsaðilar að komast undir eitt þak. „Reynslan hefur sýnt okkur að þegar þessi aðilar vinna saman þá skapast yfirsýn og hægt að sýna þá snerpu sem þarf á neyðarstund. Nú er allt komið heim og saman, samkomulag allra og þessi vel staðsetta lóð.“
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sagði undirritunina í dag vera risaskref inn í framtíðina. „Samræmingarstöðin í Skógarhlíð var gríðarlega mikilvægur áfangi á sínum tíma en nú göngum við enn lengra og nú eru allir þessir aðilar komnir saman í einar höfuðstöðvar, af þessu hlýst hagræðing og nánara og traustara samstarf þessara viðbragðsaðila.“