Aldrei hefur staðið til að leggja niður starfsemi dagsetursins Vinjar, og unglingasmiðjanna Stígs og Traðar fyrr en búið er að tryggja aðrar útfærslur á þeirri þjónustu sem veitt er. Unnið verður að umbreytingu þjónustunnar í samráði við fagfólk og hagaðila.
Fjallað er um breytingar á Vin, Stíg, og Tröð í stórum pakka af hagræðingar- og umbótatillögum sem samþykktar voru í borgarstjórn á þriðjudag og er það hluti af þeim tillögum sem nú fara til frekari vinnslu og útfærslu í fagráði, í þessu tilfelli velferðarráði. Meðal þess sem skoðað verður er hvort hægt verði að útvíkka þjónustuna og ná til fleiri notenda, og hvort hægt verði að sameina annarri þjónustu. Reykjavíkurborg leggur áherslu á að ekki komi til skerðingar á lífsgæðum þess hóps sem sækir Vin og þeirra unglinga sem njóta þjónustu smiðjanna.