Friðarsúla Yoko Ono, Imagine Peace Tower, verður tendruð í kvöld kl. 20.00 til stuðnings Úkraínu.
Þá blaktir nú úkraínski þjóðfáninn við Ráðhús Reykjavíkur og Höfða til að sýna samstöðu með úkraínsku þjóðinni á erfiðum tímum. Ráðhús Reykjavíkur verður lýst upp í fánalitum Úkraínu líkt og fjöldi annarra ráðhúsa og opinberra bygginga um heim allan.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir mikilvægt að íbúar Úkraínu finni stuðning um allan heim við þetta tilhæfulausa árásarstríð Rússlands. „Ráðist hefur verið inn í fullvalda ríki í Evrópu. Það er klárt brot á alþjóðalögum og íbúar álfunnar ætlast til þess að Evrópa standi saman, tryggi frið og sýni úkraínsku þjóðinni stuðning. Reykjavík er friðarborg og friðarsúla Yoko Ono er sameiningartákn um frið sem mun lýsa næstu daga frá Viðey,“ segir Dagur.