„Þannig er þetta á Íslandi“ – ráðstefna um hatur og félagslega inngildingu
Mannréttindi Velferð
Jafnvel þótt hatursglæpir, hatursorðræða eða hatursfull framkoma af öðru tagi sé skilgreind sem lítt alvarleg samkvæmt lögum, getur framkoman eða ofbeldið haft gríðarleg áhrif og alvarlegar afleiðingar fyrir þolendur. Þetta er meðal þess sem fram kom á ráðstefnu mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur í Veröld- húsi Vigdísar í gær, þar sem fjallað var um hatur og félagslega inngildingu.
Meðal spurninga sem leitað var svara við á ráðstefnunni voru hvernig tækla mætti hatursorðræðu, hvernig tryggja mætti inngildingu innflytjenda og hvernig styðja mætti við fjölmenningu. Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræðum, var meðal framsögumanna og fjallaði hún um hatursglæpi á Íslandi. Hún segir lítið vitað um þessa glæpi hér á landi en hefur rannsakað þá, meðal annars með viðtölum við þolendur og með netkönnun sem lögð var fyrir pólska innflytjendur hér á landi í fyrra.
56% pólskra innflytjenda upplifðu hatursorðræðu á Íslandi
Eyrún sagði málfrelsi oft notað sem réttlætingu fyrir hatursorðræðu og sagði frá dæmum af hatursfullum ummælum og annarri slíkri hegðun. Þá sagði hún eyðileggingu á munum algenga og að oft hefðu gerendur tengsl við þolendur sína; til dæmis nágrannatengsl og tengsl í gegnum vinnustað.
Nær þúsund pólskir innflytjendur svöruðu netkönnun Eyrúnar. Um tvö prósent þeirra höfðu upplifað líkamlegt ofbeldi á Íslandi vegna uppruna síns, en 56% höfðu upplifað hatursorðræðu og stór hluti þess hóps ítrekað. Ekki var laust við að færi um viðstadda þegar Eyrún lauk máli sínu á tilvitnun í innflytjanda af afrískum uppruna, sem spurður um hvort hann eða vinir hans hefðu orðið fyrir áreiti vegna uppruna síns, hló og svaraði: „Já, allir. Þannig er þetta á Íslandi!“
Félagsleg inngilding og uppbygging trausts
Jeppe Albers, framkvæmdarstjóri Nordic Safe Cities (Öruggar borgir á Norðurlöndunum, NSC), fjallaði um samtökin og hlutverk þeirra og hvernig félagsleg inngilding og uppbygging trausts væru lykilatriði í að fyrirbyggja öfgahyggju og hatur. NSC er bandalag 19 borga, þar á meðal allra norrænna höfuðborga, sem vinna að því að berjast gegn hatri og auka öryggi í borgum á Norðurlöndunum. Reykjavíkurborg hefur verið aðili að samtökunum síðan 2017 og vinnur ötullega að þessum markmiðum í nánu samstarfi við til dæmis lögregluyfirvöld. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa borgarinnar heldur utan um aðildina að samtökunum og stýrði fulltrúi hennar, Muhammed Emin Kizilkaya, ráðstefnunni og vinnustofu að henni lokinni. Vinnustofuna sátu þátttakendur frá ýmsum sviðum borgarinnar og verður skýrsla unnin upp úr niðurstöðum vinnustofunnar og ráðstefnunni allri.
Ísland eftirbátur nágrannaþjóðanna
Meðal annarra framsögumanna voru til að mynda mannréttindalögfræðingurinn og aðgerðasinninn Claudia Ashanie Wilson, danski afbrotafræðingurinn Kasper Fisker, sem ræddi meðal annars um mikilvægi þess að berjast gegn ástæðum hatursumræðu frekar en umræðunni sjálfri, og dr. María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglunni. María sýndi gögn sem sýna vel hve Ísland er eftir á samanborið við hin Norðurlöndin. Fólk hafði til dæmis mun frekar tekið eftir eða upplifað hatursfull ummæli, einelti, áreiti eða hótanir síðustu tólf mánuði á Íslandi en í Noregi. Þá taldi fólk á Íslandi sig mun frekar í erfiðleikum með viðbrögð við ofantöldu og reyndist fólk hér á landi mun síður hafa gert eitthvað til að bregðast við hatursfullum ummælum eða áreiti á netinu.
Áhugavert verkefni gegn haturshegðun barna
Hrefna Þórarinsdóttir, forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvar S78 og Tjarnarinnar og Gunnlaugur Víðir Guðmundsson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans, fjölluðu um fordóma gagnvart LGBT börnum og unglingum. Töluðu þau um hvernig miðstöðvarnar eiga að búa til öruggan stað og veita hinsegin börnum skjól og stuðning á sinni vegferð auk þess að gefa þeim kost á að hitta önnur börn og ungmenni í svipuðum sporum. Miðstöðvarnar eru opnar einu sinn í viku. Mæta 120-170 börn og ungmenni hverju sinni og sum koma langt að.
Hrefna og Gunnlaugur sögðu frá því að hatursorðræða, fordómar og áreiti gagnvart LGBT börnum og unglingum hefði aukist eftir Covid-19. Gilti það jafnt um framkomu á samfélagsmiðlum, augliti til auglitis og í samfélaginu almennt. Staðan væri mjög alvarleg og hópar ungmenna hefðu gagngert sótt samkomur LGBT barna til að gera þeim lífið leitt. Brugðist var við þessu með því að bjóða viðkomandi ungmennum að sækja stöðvarnar á sama tíma og LGBT börnin. Var þetta gert í samráði við foreldra þeirra og var markmiðið að breyta sýn barnanna á samfélagið, kyn, femínisma og fleira, með blöndu af skemmtun og fræðslu. Verkefnið hefur reynst afar vel og segja þau skilning barnanna hafa aukist mikið. Sum segi nú stolt að þau séu femínistar og hafa spurt hvort starfið haldi ekki örugglega áfram næsta vetur. Sagðist Gunnlaugur hafa tröllatrú á óformlegri menntun sem þessari. „Við kennum þeim að þau eru hluti af samfélagi þar sem þau bera ábyrgð og geta látið gott af sér leiða. Ég yrði hissa ef þessir krakkar myndu stunda svona hegðun aftur,“ sagði hann.
Allir þurfa að líta sér nær
Loks má nefna framsögu Antirasistanna, sem vakti mikla athygli viðstaddra. Þar er um að ræða fjórar stúlkur á aldrinum 16 til 19 ára, sem halda úti vettvangi fyrir raddir litaðra einstaklinga á Instagram og halda jafnframt fræðslufyrirlestra. Fyrir verkefnið fengu þær Anna Sonde, Kristín Reynisdóttir, Valgerður Kehinde Reynisdóttir og Johanna Haile frumkvöðlaverðlaun NSC, fyrir að fræða fólk um kynþáttafordóma og mismunun á Íslandi.
Kristín talaði um hvernig væri fyrir litaða einstaklinga að alast upp hér á landi og nefndi sláandi dæmi um framkomu fólks í hennar garð. Vala beindi orðum sínum sérstaklega að menntakerfinu og sagði að ef samfélagið ætti að vera öruggt þyrfti að byrja í skólunum. Á allri grunnskólagöngu sinni hefði hún aldrei lært um aðra kynþætti og fjölbreytileika mannflórunnar og kennarar hefðu ekki kunnað að bregðast við rasisma. Jóhanna sagði fyrsta skrefið að viðurkenna að rasismi væri vandamál á Íslandi og að áætlanir mættu ekki bara snúast um viðbrögð við vanda sem væri til staðar, heldur þyrfti að fyrirbyggja vandamálið. Sögðust þær vilja gera samfélagið betra og öruggara fyrir framtíðarkynslóðir og koma í veg fyrir að önnur börn þyrftu að upplifa það sem þær gengu í gegnum í sinni æsku. Allir þyrftu að líta sér nær.
Hér má skoða aðgerðaáætlun gegn hatri og öfgahyggju 2021-2022.