Takk fyrir komuna!

Mannlíf Menning og listir

Horft yfir Tjörnina að Iðnó á Menningarnótt

Menningarnótt 2022 er nú lokið og vill Reykjavíkurborg þakka gestum fyrir komuna. Hátíðin gekk mjög vel fyrir sig og talið er að sjaldan eða aldrei hafi fleiri gestir hafi lagt leið sína í miðborgina og notið fjölbreyttrar dagskrár sem í boði var.

Þetta er stærsti viðburður ársins í Reykjavík þar sem haldið er upp á afmæli borgarinnar. Hátíðahöldin eru fjölbreytt og er mikið lagt upp úr því að flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um er að ræða tónlist, myndlist, uppákomur eða aðra skemmtun. Það hefur skapast hefð hjá mörgum fjölskyldum og vinahópum að mæla sér mót á Menningarnótt enda mikið framboð af skemmtilegum viðburðum og þá eru veitingastaðir þétt setnir allan daginn. Flugeldasýningin klukkan 23:00 er svo vinsæll lokapunktur á vel heppnuðum degi.

Fjöldi fólks hefur unnið sleitulaust við undirbúning og skipulagningu Menningarnætur, starfsfólk Reykjavíkurborgar, viðbragðsaðilar, rekstraraðilar, listafólk og fleiri og þessi hátíð væri ekki jafn glæsileg og raun ber vitni ef þeirra nyti ekki við. Takk fyrir ykkar framlag.

Gestir Menningarnætur setja svip sinn á borgina og njóta þess sem í boði er. Takk fyrir komuna, við sjáumst að ári!