Styrkveitingar menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar 2022

Þau tóku við styrk Rusl Fest hópsins, frá vinstri; Elsa Jónsdóttir, Björn Loki Björnsson, Narfi Þorsteinsson og Elín Margot Ármannsdóttir

Úthlutun styrkja menningar, íþrótta- og tómstundaráðs og útnefning Listhóps Reykjavíkur 2022 fór fram í Iðnó í dag, miðvikudaginn 16. febrúar. Hjálmar Sveinsson formaður ráðsins gerði grein fyrir úthlutuninni, útnefningu Listhóps Reykjavíkur 2022 og öðru framlagi borgarinnar til menningarmála.

55 styrkir til lista- og menningarstarfsemi

Líkt og áður var faghópi, skipuðum fulltrúum Bandalags íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands, falið að fara yfir styrkumsóknir og leggja til styrki til menningar og lista. Alls voru 153 umsóknir til meðferðar þar sem sótt var um rúmar 265 milljónir króna. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð hafði 44.600.000 kr. til úthlutunar til styrkja á sviði menningarmála árið 2022, þar af 2.000.000 kr. til Listhóps Reykjavíkur, og veitti vilyrði fyrir 55 styrkjum. Engir samstarfssamningar til tveggja eða þriggja ára voru lausir til úthlutunar í ár en fyrir eru tíu hópar með eldri samninga í gildi. Þar má sem dæmi nefna Stórsveit Reykjavíkur, myndlistarhátíðina Sequences, Myndhöggvarafélag Reykjavíkur, Kammersveit Reykjavíkur og Mengi.

 

Hópurinn sem stendur að Rusl Fest í Gufunesi var útnefndur Listhópur Reykjavíkur þetta árið og hlýtur 2 milljóna króna styrk til viðburðarins. Í fararbroddi Rusl Fest eru þau Elín Margot Ármannsdóttir, Björn Loki Björnsson og Elsa Jónsdóttir. Rusl Fest er hönnunarhátíð með áherslu á sjálfbærni, hringrásarhagkerfið og samstarf skapandi rýma í Gufunesi. Um er að ræða vikulangan viðburð þar sem þátttakendur vinna m.a. með listir, hönnun, mat, arkitektúr og tónlist og á meðal samstarfsaðila eru Fúsk , Iðnaðarrými C, og Loftkastalinn. Aðrir þátttakendur eru t.a.m. listahátíðin LungA, Valdís Steinarsdóttir, Plast Plan, Munasafn Reykjavíkur, Listaháskóli Íslands og Bambahús ásamt erlendu samstarfsaðilunum Blivande og Institut for X. Afrakstur samstarfsins verður sýndur á lokadögum hátíðarinnar með viðburðum, sýningum, fyrirlestrum, pallborðsumræðum og ýmsum samkomum í fjölmörgum rýmum í Gufunesi. Viðburðurinn mun varpa ljósi á og blása enn meira lífi í skapandi hverfi í Reykjavík sem er í spennandi þróun, auk þess að fjalla um mikilvægt málefni líðandi stundar.

Hæsta árlega styrkinn fyrir árið 2022 hlutu Lókal leiklistarhátíð með 2,5 milljón króna styrk, Menningarfélagið Hneykslist fyrir Reykjavík Fringe Festival, Samband íslenskra myndlistarmanna fyrir Torgið Listamessu og Listvinafélagið í Reykjavík með tveggja milljón króna styrk og Ung Nordisk Musik, Norrænir músíkdagar og Design Talks á Hönnunarmars með 1,5 milljón króna styrk. Aðrir styrkir nema hæst 1,2 m.kr. og lægst 300 þúsund krónum.

Þessu til viðbótar verður úthlutað í þriðja skiptið úr Úrbótasjóði tónleikastaða fyrir árið 2022 en upphæðin sem þar er til úthlutunar er 8 milljónir. Opnað verður fyrir umsóknir í úrbótasjóðinn síðar á árinu.

Hæstu framlög til menningarlífsins í borginni fyrir utan rekstur menningarstofnana hennar, Borgarbókasafns, Listasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns, fara til Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsi, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Jafnframt njóta Listahátíð í Reykjavík, Sviðslistamiðstöð í Tjarnarbíói, Bíó Paradís, Nýlistasafnið og fleiri sjálfstæðir aðilar húsnæðis- og/eða rekstrarstyrkja frá Reykjavíkurborg.