Starfsemi Vesturborgar öll í aðalbyggingu á framkvæmdatíma

Skóli og frístund

Nýr leikskóli við Völvufell

Öll kennsla leikskólans Vesturborgar verður tímabundið í aðalbyggingu frá og með deginum í dag eftir að mygla greindist í Skála, elsta hluta skólans. Brugðist var hratt við þegar niðurstöður úr sýnatökum bárust og er unnið að gerð framkvæmdaáætlunar.

Leikskólastjóri Vesturborgar leitaði til umhverfis- og skipulagssviðs fyrir áramót og óskaði eftir skoðun og mögulegum viðgerðum á svæði í salnum í Skála, sem hýsir eina af þremur deildum skólans. Þar sem grunur lék á rakaskemmdum var ákveðið að taka sýni þar og einnig á öðrum stöðum í húsinu og greindist mygla á tveimur svæðum, í sal og krók. 

Reykjavíkurborg vinnur nú eftir nýjum verkferlum um rakaskemmdir og myglu og var tekin sú ákvörðun að flytja öll börn sem voru í Skála yfir í aðalbyggingu strax eftir hádegi í dag. Þær deildir sem fyrir voru í byggingunni verða sameinaðar í eina deild á meðan framkvæmdir standa yfir.

Skáli er elsta bygging skólans og sá hluti þar sem mygla greindist er að hluta til niðurgrafinn. Brugðist var hratt við fréttunum um myglu og er því enn óljóst hvert umfang framkvæmda verður en búast má við að byrjað verði að grafa frá veggjum síðdegis í dag. Húsgögn, leikföng, bækur og aðrir munir sem flytjast með börnunum verða hreinsuð með sérstökum hætti á næstu dögum. 

Starfsfólk og foreldrar voru upplýstir um stöðu mála í dag. Íris Edda Arnardóttir leikskólastjóri segist bjartsýn á að vel muni fara um alla í aðalbyggingunni á framkvæmdatímanum. Hún segir samhug ríkja í starfsmannahópnum og að allir sem koma að málinu séu sammála um að leita leiða til að raska skólastarfi sem allra minnst.