Sprengjugeymslan sem varð að menningarmiðstöð

Menning og listir

Kartöflugeymslurnar, 4. sept 1987. Mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Margir kannast við kartöflugeymslurnar svokölluðu, sem standa í miðri Ártúnsbrekkunni.  Byggingin var upphaflega reist í Hvalfirði sem sprengjugeymsla fyrir herskip Bandaríkjamanna í síðari heimsstyrjöldinni, en eftir stríð var hún flutt á núverandi stað og nýtt sem kartöflugeymsla í áratugi. Byggingin er mynduð úr sjö sjálfstæðum einingum sem hver um sig er tæpir 230 fermetrar og með fimm metra lofthæð. Hefur hún verið endurbyggð frá grunni og tvær nýbyggingar reistar. Lesa má meira um húsnæðið á hlm.is.

Kristinn Brynjólfsson keypti kartöflugeymslurnar árið 1996 og hefur gert þær upp. „Þá var ég að koma úr námi á Ítalíu og sá mikil tækifæri þarna. Þetta eru einstakar minjar um síðari heimsstyrjöldina, inni í miðri höfuðborg,“ segir Kristinn, sem lærði arkitektúr og innanhússarkitektúr, auk þess sem hann var húsgagnasmiður fyrir. „Þetta er ennþá verk í vinnslu en möguleikarnir eru miklir. Ég mun sjálfur sýna eigin húsgagnahönnun í einu rýminu og búið er að innrétta gallerí þar sem hafa verið haldnar listasýningar. Svo er 800 fermetra rými undir bílaplaninu og hugmyndir um að þar gæti orðið jassklúbbur.“ 

Fyrst íslenskra kvenna að opna setur fyrir myndlist sína 

Kartöflugeymslurnar hýsa nú ýmiss konar starfsemi; svo sem rakarastofu, tattústofu og verslun með íslenska hönnunarvöru. Þá var Höfuðstöðin opnuð nú í janúar, en það er lista- og menningarhús stofnað af listamanninum Hrafnhildi Arnardóttur/Shoplifter og Lilju Hrönn Baldursdóttur, listrænum framleiðanda og framkvæmdastjóra Höfuðstöðvarinnar. Þar hefur innsetning Hrafnhildar, Chromo Sapiens, fengið aðsetur til frambúðar en verkið var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2019 og síðar sett upp í Listasafni Reykjavíkur þar sem það var ein mest sótta sýning safnsins frá upphafi. Hrafnhildur er fyrsta íslenska konan til að opna menningarsetur undir myndlist sína. Í Höfuðstöðinni geta gestir notið listaverksins í umhverfi íslenskrar náttúru en þar eru líka hönnunarverslun og kaffihús.

 Listin og náttúran tala saman 

Lilja segir kartöflugeymslurnar fullkomið húsnæði fyrir Höfuðstöðina. „Í Feneyjum var verkið Chromo Sapiens ekki á aðal sýningarsvæðinu, heldur á eyju sem þurfti að ferðast út í á báti. Það varð mikill hluti af upplifuninni að ferðast út í eyjuna og dvelja þar og okkur fannst mikilvægt að finna verkinu stað sem fangaði þennan anda. Maður þarf líka að gera sér ferð í kartöflugeymslurnar, maður labbar ekki bara óvart framhjá þeim. Við vildum finna stað sem væri ekki í miðbænum og þetta er góð staðsetning því hún tengir svo mörg úthverfi,“ segir Lilja. „Hrafnhildur er líka mikið fyrir óvenjuleg hús og sérstaklega bogalöguð. Þegar við sáum kartöflugeymslurnar auglýstar trúðum við varla eigin augum; braggarnir sem við keyptum hafa líka frábært útsýni og okkur finnst frábært að geta boðið fólki upp á samtalið milli verksins hennar Hrafnhildar og náttúrunnar allt í kringum það.“ 

Þær Lilja og Hrafnhildur ætla að hafa Höfuðstöðina í kartöflugeymslunum til frambúðar. „Þetta er lista- og menningarhús sem hýsir þetta verk og svo viljum við mögulega fara út í meira í framtíðinni,“ segir Lilja. „Viðtökurnar hafa verið frábærar og við vonum að þetta festi sig í sessi meðal helstu menningarstaða á Íslandi. Þetta er áhugavert bæði fyrir landsmenn og ferðafólk, hér er opið alla daga og hægt er að leigja rýmið fyrir viðburði og veislur. Við tökum vel á móti öllum sem vilja koma til okkar.“