Skipaður starfshópur um varanlegan regnboga

Mannlíf Umhverfi

Regnbogi á Skólavörðustíg.

Skipaður verður starfshópur um varanlegan regnboga í miðborginni en í hópnum verða fulltrúar Samtakanna ‘78, Hinsegin daga í Reykjavík, borgarhönnunar Reykjavíkurborgar og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar. Hlutverk hópsins verður að móta stefnu varðandi útfærslu regnbogans og varanlegrar staðsetningar regnbogans í miðborg Reykjavíkur.

Í drögum að erindisbréfi starfshópsins sem samþykkt var á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í morgun með öllum greiddum atkvæðum segir að núverandi staðsetning hafi almennt mælst vel fyrir og regnboginn sé orðinn eitt af kennileitum Reykjavíkur. Jafnframt liggi fyrir að áform séu uppi um breytingar á Skólavörðustíg í tengslum við varanlega breytingu svæðisins í göngugötu. Í því samhengi þyki rétt að skoða framtíðarútfærslu á regnboganum í miðborg Reykjavíkur á núverandi eða nýjum stað.

Helstu verkefni starfshópsins

  • Að skoða valkosti varðandi varanlega framtíðarstaðsetningu regnbogans, þar með talið óbreytta staðsetningu hans á neðri hluta Skólavörðustígs.
  • Leggja mat á ávinning þess að þess að umhverfis- og skipulagssviði verði falið að móta tillögu að útfærslu og staðsetningu út frá þeim forsendum og markmiðum sem hópurinn setur samanborið við að efna til samkeppni.
  • Að gera tillögur til skipulags- og samgönguráðs um næstu skref.

Einnig er áætlað að starfshópurinn vinni hagsmunaaðilagreiningu sem síðan verði lögð til grundvallar því samráði og samstarfi sem þarf að hafa vegna vinnu hópsins. Starfshópurinn leiti einnig ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu eftir því sem við á.

Áætlað er að starfshópurinn skili kostnaðarmetnum tillögum til skipulags- og samgönguráðs fyrir lok september 2022.