Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar jákvæð um 23,4 milljarða

Fjármál

Önd í polli fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur

Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 23,4 milljarða króna á árinu 2021 og var niðurstaða beggja rekstrarhluta borgarinnar töluvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar á árinu 2021 var jákvæð um 23,4 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 3,3 milljarða. Rekstrarniðurstaða A-hluta á árinu 2021 var neikvæð um 3,8 milljarða króna eða 8,1 milljarði betri en áætlun gerði ráð fyrir. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ársreikninginn gríðarlega sterka niðurstöðu við krefjandi aðstæður.

Jákvæð rekstrarniðurstaða

Betri niðurstaða skýrist einkum af matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum 19,4 ma.kr. umfram áætlun, áhrifum af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur sem námu 6,6 ma.kr. á árinu og auknum rekstrartekjum. 

Samtals námu rekstrartekjur A- og B-hluta 202,6 ma.kr. á árinu eða 7,4 ma.kr. yfir  áætlun.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 20,8 ma.kr., sem er 11,9 ma.kr. betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.  Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok samtals 790,6 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 407,3 ma.kr. Eigið fé nam 383,3 ma.kr., en þar af nam hlutdeild minnihluta 14,3 ma.kr. Eiginfjárhlutfall er nú 48,5% en var 46,9% um síðustu áramót.

Auknar tekjur til móts við kostnað vegna Covid aðgerða

Betri afkoma A-hluta skýrist einkum af hærri staðgreiðslu útsvars og betri ávöxtunar eigna lífeyrissjóðs LsRb en á móti kom aukinn launakostnaður sem að hluta má rekja til Covid aðgerða í leikskólum, grunnskólum og velferðarþjónustu, innleiðingar á betri vinnutíma auk stuðnings- og stoðþjónustu. 

Rekstrartekjur A-hluta voru 7,7 ma.kr. yfir áætlun. Útsvarstekjur voru 6,3 ma.kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir. Laun og launatengd gjöld voru 4,8 ma.kr. yfir fjárheimildum.  Lækkun lífeyrisskuldbindingar vegna LsRb nam 0,2 ma.kr. tekjufærslu og var 3,7 ma.kr. undir áætlun.  Heildareignir A-hluta samkvæmt efnahagsreikningi námu í árslok samtals 236,5 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 144,6 ma.kr.  Eigið fé nam 91,9 ma.kr.

Gott veganesti inn í framtíðina

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir Reykjavík hafa staðist prófið. „Niðurstaðan er mun sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn auka kostnað vegna covid, sérstaklega í skólum og velferðarþjónustunni. Þar sýndi starfsfólk og stjórnendur ótrúlega útsjónarsemi og seiglu og ég er sérstaklega stoltur af því hvernig þessi tvö ár gengu í þjónustu við borgarbúa. Við brugðumst einnig við heimsfaraldrinum með því að auka fjárfestingar í stað þess að draga saman seglin. Þar erum við að fjárfesta í innviðum hverfanna okkar og lífsgæðum fyrir borgarbúa, með grænum áherslum í samræmi við Græna planið. Þessi ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda, og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina og fyrir þá miklu uppbyggingu sem fram undan er.”

Rekstur Reykjavíkurborgar

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru:  Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf., Jafnlaunastofa sf. og Þjóðarleikvangs ehf.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 var lagður fyrir borgarráð í dag 22. apríl og vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn þann 26. apríl næstkomandi.