Búið er að setja fallegar páskaskreytingar í ker í miðborg Reykjavíkur sem ættu að gleðja gesti og gangandi yfir páskahátíðina. „Við setjum í kerin fjórum sinnum á ári og reynum að hafa þetta alltaf fallegt og skemmtilegt,“ segir Karen Hauksdóttir yfirverkstjóri hjá garðyrkju Reykjavíkurborgar en til viðbótar við páskaskreytingar, eru jóla- og haustkerin á sínum stað auk hinna ómissandi sumarblóma.
Misjafnt er á milli ára hversu vel gengur að setja niður skreytingarnar. „Veðrið getur verið að stríða okkur,“ segir Karen en í fyrra reyndist erfitt að koma blómunum niður. „En þetta gekk eins og í sögu núna,“ segir hún en starfsfólk garðyrkjunnar setti niður í kerin á fimmtudag, föstudag og mánudag og þess má geta að gróðurhúsið við Lækjartorg er líka komið í páskabúning.
Páskaliljur, perluliljur, fjólur og sýprus
Í kerjunum eru páskaliljur, perluliljur, fjólur og sýprus. Þetta er í annað sinn sem fjólur eru með í páskaskreytingunum. Karen útskýrir að búið hafi verið að herða þær sérstaklega í Ræktunarstöð Reykjavíkur, svo þær myndu þola að vera úti á þessum árstíma.
„Við vorum að vökva í dag,“ segir Karen og bætir við að fjólurnar hafi þolað veðurfarið hingað til og svo líti vel út með veðrið því hlýindi séu í kortunum.
Kerin eru oftar en ekki byggð upp á sama hátt. „Við reynum alltaf í kerjunum að hafa miðjuna hæsta og svo koll af kolli. Uppsetningin er sú sama en tegundirnar eru mismunandi,“ segir hún.
Páskaskreytingarnar gleðja og eru enn fremur skemmtilegur þáttur í starfi garðyrkjufólksins okkar sem er alltaf í takt við árstíðirnar. „Við byrjum á klippingum um áramót ef veður leyfir og þær eru að klárast núna,“ segir Karen og bendir á að krókusarnir séu líka að lauma sér upp hér og þar og er því um að gera að hafa augun opin fyrir þessum vorboðum. „Það kemur vor í mann núna,“ segir Karen að lokum.