Nýr tónlistarkjarni í Árbæ

Mannlíf

Kristján Sturla við gróðurvegg á kaffihúsi.

Tónhylur er tónlistarkjarni í Árbæ sem rekinn er af Tónlistarfélagi Árbæjar með góðum stuðningi frá Reykjavíkurborg. Í Tónhyl er blómlegt samfélag listafólk þar sem lögð er áhersla á að styðja þau sem eru að stíga sín fyrstu skref. Þarna er saman komið tónlistarfólk úr ólíkum áttum og fær það stuðning, aðstöðu og fræðslu.

„Hér eru allir jafnir, það er enginn betri en annar í þessu samfélagi heldur eru allir að hjálpast að við að gera góða tónlist og styðja hvert annað við það. Það er samfélagið okkar í hnotskurn,“ segir Kristján Sturla Bjarnason sem er talsmaður öflugs hóps sem stendur á bak við Tónhyl, sem er með starfsemi í Stangarhyl 7 í Árbænum. 

Stúdíó, akademía og æfingarými

„Við leggjum mikla áherslu á þessa samfélagslegu hugsun og að binda saman allar þessar einingar sem eru hérna innanhúss. Samfélagið byggist á því að við erum með reynslumikið tónlistarfólk sem starfar í húsinu og svo erum við með þau sem eru að stíga sín fyrstu skref,“ segir Kristján en í Tónhyl er margs konar starfsemi. Þar er atvinnufólk með stúdíó, akademía þar sem ungt tónlistarfólk fær leiðsögn í lagasmíðum, textagerð, hljóðblöndum og fleira og einnig er boðið uppá æfingarými fyrir hljómsveitir. Þarna er enn fremur rými fyrir skapandi fólk á fleiri sviðum en framleiðslufyrirtæki er með skrifstofu í húsinu og einnig Sony-útgáfan.

„Atvinnutónlistarmenn eru hér á þeim forsendum að þeir eigi að hjálpa þeim sem eru að byrja með því að til dæmis koma á námskeiðin og halda fyrirlestra,“ segir Kristján, sem sjálfur er með stúdíó í Tónhyl en hann er tónskáld og hefur meðal annars samið tónlist fyrir fjölmargar kvikmyndir, nú síðast Leynilöggu.

Samfélag sem virkar

Þetta samfélag virkar en Kristján rifjar upp að þarna hafi verið ungur strákur að semja lög en atvinnutónlistarmaður í húsinu hafi heyrt lagið, fundist það flott og beðið hann um að gera lag fyrir sig. „Allt í einu fékk þessi strákur að gera lag fyrir einn uppáhalds tónlistarmanninn sinn,“ segir Kristján og útskýrir nánar. „Það eru allir meðvitaðir um að vera fyrirmyndir. Okkur finnst þessi stuðningur skipta miklu máli, að hvetja aðra áfram, allir voru einhvern tímann á þessum stað,“ segir Kristján sem aðspurður segist sjálfur muna eftir þessum stað.

 „Ég læri helling af þeim sem eru að byrja. Ég veit ekki allt og læri af þeim sem eru að koma hingað og taka sín fyrstu skref. Þau kenna mér helling líka. Þetta gefur mér líka hvatningu til að gera ennþá betur. Þetta er rosalega hollt fyrir alla, hollt að vera hluti af einhverju samfélagi og upplifa sig sem hluta af heild. Tónhylur er meira en hús, það er samfélag sem er bakland fyrir tónlistarfólk,“ segir hann.

Kennari við Árbæjarskóla

Kristján er ekki aðeins tónlistarmaður heldur er hann líka kennari í Árbæjarskóla. Þar á undan stýrði hann félagsmiðstöð í Árbæjarhverfi svo hann hefur mikla reynslu af því að vinna með ungu fólki. Hann tekur með þér það besta úr starfinu, það sem hefur höfðað mest til hans í þessari vinnu og notar þá reynslu inn í námskeið fyrir ungt fólk í Tónhyl.

Í  Árbæjarskóla eru í boði mörg spennandi valfög í unglingadeildinni. Kristján kennir þar meðal annars lagasmíðar og upptökur og áfangann Á toppinn sem hann á hugmyndina að ásamt Kjartani Stefánssyni. Árbæjarskóli fékk hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir verkefnið árið 2021 en það gengur út að fara í fjallgöngur með lífsleikniívafi þar sem fjallið er lífið sjálft og ferðalagið á toppinn það sem mestu máli skiptir

„Þú sérð styrkleika krakkanna svo mikið í gegnum það þegar þau eru að sinna einhverju sem þau hafa áhuga á. Lífsleikni er eitthvað sem maður kennir ekki á glærum,“ segir Kristján.

Tónlistarnámskeiðin í Tónhyl eru til dæmis fyrir „einstaklinga sem sem passa ekki í þetta formlega tónlistarnám en finnst gaman að skapa og búa eitthvað til“.

Kristján segir að það kosti sitt að koma sér upp græjum og því sé mikilvægt að ungt fólk hafi aðgang að fyrsta flokks aðstöðu. „Við hugsuðum þetta að mörgu leyti eins og íþróttafélag, nema þetta snýst um tónlist og þú mætir á lagasmíðaæfingar.“ Textagerð er líka stór hluti af náminu. „Það er kúnst að tjá sig í gegnum texta,“ segir Kristján sem hefur gaman af því að fylgjast með framförum nemenda í textagerð sem oftar en ekki byrja á frumstæðari textum þar sem verið er að herma eftir því sem þau heyra. „ Allt í einu fer maður að heyra meiri einlægni og texta frá hjartanu. Þá sér maður að æfingin skapar meistarann.“

Nýtt kaffihús í hverfinu

Í Tónhyl er líka nýbúið að opna kaffihúsið Melodíu, sem Árbæingar hafa tekið fagnandi.

„Kaffihúsið er hluti af Tónhyl því þeir sem eru hér geta farið á kaffihúsið en það er fyrir hverfið líka og það er draumur að þetta verði vinsælt kaffihús í hverfinu og festi sig í sessi,“ segir Kristján sem er spenntur fyrir þessu sambýli og sér fyrir sér uppákomur á kaffihúsinu á vegum tónlistarfólks Tónhyls. Árbæingar og nágrannar geta fylgst með Melodíu á Instagram og Facebook. Það eru Andri Már Magnason og Karen Sif Heimisdóttir sem sjá um rekstur kaffihússins.

Það er því blómleg starfsemi í Tónhyl sem skilar sér út í hverfið og víðar. „Svona starf getur gert mikið fyrir menninguna í hverfinu. Þetta skiptir máli að hafa svona stað. Árbærinn er orðinn stór viðkomustaður tónlistarfólks af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Kristján en þarna æfa margar hljómsveitir og líka mætir margt tónlistarfólk þangað í upptökur. „Það eru mörg lög og plötur sem hafa verið gerðar hér að undanförnu,“ segir hann og má þar af tónlistarfólki til dæmis nefna Jón Jónsson, Vök, Elínu Hall, Kristínu Sesselju og GDRN.

Kristján væri til í að sjá svæðið í kringum Tónhyl í Stangarhylnum þróast áfram sem öfluga miðstöð menningar með veitingahúsum og tónleikastöðum. Tónhylur er allavega góð byrjun og áfangastaður út af fyrir sig, líka fyrir hinn almenna íbúa, ekki síst nú þegar kaffihúsið hefur verið opnað.

Styrktarsamningur við Reykjavíkurborg

„Tónlistarfélag Árbæjar er óhagnaðardrifið félag. Allt sem kemur hér inn fer í meiri uppbyggingu. Þetta er sjálfboðaliðastarf. Við höfum ekki getað tekið á móti eins mörgum og við höfum viljað í námskeiðin,“ segir Kristján en starfið er í þróun en tekin var ákvörðun um að byrja hægt og rólega til að byggja upp til framtíðar. Hér er ekki kastað til höndum.

 „Hér er margt skapandi fólk og það eru margar hugmyndir í gangi,“ segir Kristján sem er þakklátur fyrir stuðning Reykjavíkurborgar, en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, skrifaði undir nýjan samning við Tónlistarfélag Árbæjar til næstu þriggja ára í hverfaviku í Árbæ en íbúafundur borgarstjóra var haldinn fimmtudaginn 3. mars í hverfinu.

„Við hefðum ekki getað gert þetta annars. Við erum þakklát fyrir að borgin hafi treyst okkur fyrir þessu verkefni. Þetta er bara rétt að byrja.“