Kolefnishlutleysi árið 2030

Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, heldur erindi um kolefnishlutlausa borg.
Myndin sýnir Dag B. Eggertsson, halda erindi um kolefnishlutlausa borg.

Árlegur Loftslagsfundur Festu og Reykjavíkurborgar fór fram í gær, fimmtudaginn 10. nóvember, í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Í ár var lögð áhersla á að efla fyrirtæki sem vilja ná fram kolefnishlutleysi í sínum rekstri fyrir árið 2030.

Þetta er í sjöunda sinn sem Loftslagsfundurinn var haldinn og hann hefur skapað sér sess sem vettvangur til þess að kynnast nýjungum og hagnýtum aðferðum í loftslagsmálum og hvernig borg og atvinnulíf geta tekið höndum saman til að ná settu markmiði. 

Fyrirtækjum fjölgar sem skrifa undir Loftslagsyfirlýsingu 

Þrjú ný fyrirtæki skrifuðu undir Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar með borgarstjóra og framkvæmdarstjóra Festu, á fundinum. Þau bættust þá í hóp rúmlega 170 íslenskra fyrirtækja sem skrifað hafa undir viljayfirlýsinguna. Hún miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangi og mæla árangur og birta hann. Ný fyrir tæki eru; Eignarhaldsfélagið Hornsteinn (á BM Vallá, Sementsverksmiðjuna og Björgun), Orb (hugbúnaðarfyrirtæki) og Rafal (raforkufyrirtæki).

Borgarstjóri kynnti nýtt verkefni borgarinnar sem kallast Loftslagssamningur Reykjavíkurborgar. Hann sagði m.a. að  „Það er samkomulag borgarinnar – vonandi með stjórnvöldum líka, háskólanna, fyrirtækjanna og íbúanna í borginni um hvaða markmið þau ætla að setja sér sem lið í því að ná þeim árangri sem þessi stóri leiðangur sem við erum þáttakandi í leiðir af sér. Við viljum eiga gott samtal við aðila að Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar næsta árið og fá vonandi sem flesta um borð og síðan fleiri þannig að við séum með sameiginlega áætlun og plan með skuldbindandi markmiðum sem við ætlum okkur að ná til þess að tryggja þennan árangur sem ekki bara Reykjavík og Ísland, heldur lífríkið allt og jörðin þarf að ná allsstaðar í heiminum."

Þess má einnig geta að Reykjavík hefur verið valin sem ein af 112 borgum í Evrópu til þess að vera leiðandi fyrir aðrar evrópskar borgir um það hvernig megi gefa í að kolefnishlutleysi til ársins 2030.

Fræðsla um kolefnishlutleysi

Í ár var ný nálgun á fundinum þar sem þungamiðja fundarins lá að þessu sinni í fræðsluerindum. Erindin ræddu og fræddu m.a. um kolefnishlutleysi í rekstri og hvaða skref þarf að taka til að ná því, hvernig opinber útboð og innkaup hjá Reykjavíkurborg geta stuðlað að kolefnishlutleysi (mannvirki og byggingar), hvað sé í vændum með nýjum hringrásarhagkerfislögum næsta árs og nokkur fyrirtæki deila sínum leiðangri að kolefnishlutleysi

Fundarstjóri var Nanna Elísa Jakobsdóttir viðskiptastjóri á iðnaðar og hugverkasviði hjá Samtökum iðnaðarins ávörp fluttu fulltrúi ungmenna og kjörinn Ungur umhverfissinni árið 2021-2022, Stefán Örn Snæbjörnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, og að lokum Tómas N. Möller, formaður Festu.

Upptökur af fundinum